Langur samningur Frakkans

Kingsley Coman leikur áfram með Bayern næstu árin.
Kingsley Coman leikur áfram með Bayern næstu árin. AFP

Þýska meistaraliðið Bayern München tilkynnti í dag að franski knattspyrnumaðurinn Kingsley Coman hefði skrifað undir nýjan samning við félagið til fimm ára.

Coman er 25 ára gamall kantmaður sem kom fyrst til Bayern frá Juventus sem lánsmaður árið 2015 og síðan alkominn til félagsins tveimur árum síðar. Hann hefur skorað 27 mörk í 146 leikjum í þýsku 1. deildinni og samtals 37 mörk í 157 mótsleikjum.

Þá á Coman að baki 36 landsleiki fyrir Frakkland þar sem hann hefur skorað fimm mörk. Hann er fæddur í París en foreldrar hans eru frá fyrrverandi frönsku nýlendunni Guadeloupe í Karabíska hafinu. Coman ólst upp hjá París SG en fór þaðan til Juventus á Ítalíu átján ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert