Ljósin kveikt í meira en ár vegna bilunar

Enginn hefur getað slökkt ljósin frá árinu 2021.
Enginn hefur getað slökkt ljósin frá árinu 2021. Ljósmynd/Unsplash

Vonir standa til að hægt verði að slökkva ljósin í menntaskóla í Massachusetts um mánaðamótin, einu og hálfu ári eftir að bilun í tölvubúnaði varð til þess að þau lýsa allan sólarhringinn. 

Snjallljósakerfi var sett upp í Minnechaug-skólanum árið 2012 sem átti að spara rafmagn, en nú er ljóst að það fór ekki eins og til stóð.

Vegna bilunarinnar hefur ekki verið nokkur leið að slökkva eitt einasta af 7.000 ljósum byggingarinnar án þess að skrúfa úr perur eða slá út öryggi og þar með rafmagni á stórum svæðum.

Skólayfirvöld tjá NBC-fréttastofunni að aukakostnaður vegna þessarar ljósadýrðar hlaupi á þúsundum dollara á mánuði.

Myrkur við enda ganganna

Bilunin varð síðsumars 2021 í miðjum faraldri og erfiðlega gekk að útvega varahluti til að gera við kerfið. Nú er þó ljós, eða öllu heldur myrkur, við enda ganganna, en varahlutirnir eru komnir í hús, og nú þarf einungis að uppfæra hugbúnað kerfisins.

Forstjóri fyrirtækisins sem setti kerfið upp upprunalega segir í samtali við fréttastofu AP að í þetta sinn verði það búið fjarstýrðum slökkvara til að fyrirbyggja að þetta endurtaki sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert