VR velur Fyrirtæki ársins 2022 í maí

Könnun VR á Fyrirtæki ársins hefst í febrúar 2022 en …
Könnun VR á Fyrirtæki ársins hefst í febrúar 2022 en fyrirtæki hafa frest til 24. janúar til að skrá þátttöku sína í könnuninni. Mynd/VR

Könnun VR á Fyrirtæki ársins hefst í febrúar. Í maí verður svo tilkynnt hvaða fyrirtæki fá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki, alls 45 talsins, þar með talin vinningsfyrirtækin sjálf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR.

Segja könnunina sjaldan verið mikilvægari en nú

Í tilkynningunni segir að könnunin hafi sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú. Kórónuveiran og afleiðingar hennar hafi haft gríðarleg áhrif á fyrirtæki, fjölskyldur og samfélagið allt. Á slíkum tímum sé mikilvægt að kanna hvernig starfsfólkinu líði.

Þannig snúist könnun VR á Fyrirtæki ársins ekki aðeins um að veita fyrirtækjum viðurkenningu fyrir góðan árangur í mannauðsmálum heldur gefi niðurstöðurnar víðtæka og áreiðanlega mynd af stöðu mála í innra umhverfi fyrirtækisins á erfiðum tímum og hvaða augum starfsfólk þess líti stjórnunina og starfsumhverfi sitt. Niðurstöðurnar séu þannig frábært vinnutæki til umbótastarfs innan fyrirtækisins.

Þátttaka starfsfólks utan VR kostar aukalega

Könnunin verður send til allra félagsmanna VR og er forsenda þess að fyrirtækið komi til greina í vali á Fyrirtæki ársins 2022 að allt starfsfólk hafi tækifæri til þátttöku.

Fyrirtæki bera ekki kostnað vegna þátttöku starfsfólks sem er í VR en geta óskað eftir því að starfsfólk utan VR fái þátttökurétt gegn gjaldi á bilinu 59.900-89.900 kr., eftir stærð fyrirtækisins. Að auki bætast 390 kr. við hvern starfsmann sem er ekki í VR.

Þá geta fyrirtæki keypt skýrslu með niðurstöðum fyrir sitt fyrirtæki sem tilbúin er til kynningar fyrir starfsfólk. Kostnaður vegna skýrslugerðarinnar er á bilinu 109.900-179.900 kr. eftir stærð fyrirtækisins.

Skráningarfrestur rennur út á mánudaginn

Í maí 2022 verður svo tilkynnt hvaða fyrirtæki hafa orðið fyrir valinu sem Fyrirtæki ársins. Valið byggir á niðurstöðum í lykilþáttunum níu og eru fimm fyrirtæki valin í hverjum þriggja stærðarflokka.

Fyrirtæki sem eru í fimmtán efstu sætunum í hverjum flokki fá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki, alls 45 talsins, þar með talin vinningsfyrirtækin sjálf. Niðurstöður allra fyrirtækja sem ná lágmarkssvörun eru birtar opinberlega á vef VR, hvort sem allt starfsfólk hafi tækifæri til þátttöku eða ekki. 

Viðurkenningar eru veittar í stærðarflokkunum minni, meðalstór og stærri fyrirtæki.

Könnunin hefst eins og áður sagði í byrjun febrúar 2022 og þurfa þau fyrirtæki sem veita öllu starfsfólki tækifæri til þátttöku að skrá þáttöku sína í könnuninni fyrir 24. janúar næstkomandi.

Nánari upplýsingar um könnunina og hvernig fyrirtæki geta tekið þátt í henni má finna á vef VR.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK