Undrast meiri gjaldtöku án bættra almenningssamgangna

Sérkennilegt er að horfa upp á þéttingu búabyggðar í miðborg …
Sérkennilegt er að horfa upp á þéttingu búabyggðar í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og bílastæðum er fækkað, stæðisgjöld hækkuð og gjaldtökusvæðum fjölgað, án þess að því fylgi aukin og bætt þjónusta með almenningssamgöngum, segir í tilkynningu FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra bifreiðaeigenda gagnrýnir gjaldtöku Reykjavíkurborgar og einkafyrirtækja á bílastæðum.

Samtökin fullyrða í tilkynningu að óreiða ríki í innheimtuleiðum og víða skorti verðupplýsingar. 

„Reykjavíkurborg og einkafyrirtæki hafa að undanförnu stóraukið gjaldtöku fyrir bílastæði, stækkað gjaldtökusvæði, lengt gjaldtökutíma og sett upp ný,“ segir í tilkynningunni.

„Gjaldtaka á sumum nýlegum bílastæðum í einkaeigu lyktar af græðgi. Nefna má bílastæðið á Barónsstíg 4, þar sem klukkutíminn kostar 1.000 krónur og innheimt er allan sólarhringinn.“

Við Röntgen Domus kostar fyrsta klukkustundin nú 320 kr. og …
Við Röntgen Domus kostar fyrsta klukkustundin nú 320 kr. og hver klukkustund eftir það 800 kr. Gjaldskylda er allan sólarhringinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri ásókn í gjaldfrjáls bílastæði

Þá segir að alvarlegur fylgifiskur útþenslu gjaldtökusvæða sé að fólk sækist meira í gjaldfrjáls bílastæði. Fullyrt er að íbúar miðsvæðis í Reykjavík séu að missa stæði við heimili sín vegna þessa.

Einnig sé óljóst hvaða greiðsluleiðir standi til boða á hvaða svæði. Fjöldi bílastæðafyrirtækja og greiðsluleiða valdi því að bíleigendur fái oftar en ekki kröfu um greiðslu „vanrækslugjalda“ upp á margfaldar fjárhæðir sjálfra bílastæðagjaldanna. 

Þá undra samtökin sig á því að Neytendastofa hafi ekki tekið í taumana. Aðhalds- og aðgerðaleysi hins opinbera gagnvart þessari þróun valdi vonbrigðum.

Bæta þurfi almenningssamgöngur samhliða

Fullyrt er að svokölluð ringulreið innheimtuaðferða, græðgisvæðing á bílastæðum og lenging gjaldtökutíma, lendi af fullum þunga á herðum almennings.

„Óviðunandi er að fólk sitji uppi með alls konar refsigjöld vegna þessa ástands. Sérkennilegt er að horfa upp á þéttingu búabyggðar í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og bílastæðum er fækkað, stæðisgjöld hækkuð og gjaldtökusvæðum fjölgað, án þess að því fylgi aukin og bætt þjónusta með almenningssamgöngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert