Loftmengun aftur yfir heilsuverndarmörk í morgun

Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í gær og mældist mesta mengun …
Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í gær og mældist mesta mengun ársins við leikskólann Lund. Samsett mynd

Loftmengun við leikskólann Lund í Reykjavík fór aftur yfir heilsuverndarmörk í morgun samkvæmt loftgæðaupplýsingakerfi Umhverfisstofnunar. Klukkan níu í morgun fór klukkustundargildi svifryks upp í 241,7 míkró­grömm á rúm­metra og klukkutíma síðar var gildið 161,1.

Þess ber að geta að til þess að loftmengun fari yfir heilsuverndarmörk þarf klukkustundargildið að fara yfir 50 míkró­grömm á rúm­metra. Á hádegi var klukkustundargildið um 103,8 míkró­grömm á rúm­metra en um eittleytið var það komið niður í 22,5.

Þá fór svifryksmengun einnig yfir heilsuverndarmörk í morgun við Vesturbæjarlaug, Grensásveg, Laugarnes og Dalsmára í Kópavogi.

Verstu tölur sem sést hafa í ár

Í gær gaf heilbrigðiseftirlitið út viðvörun þar sem mælst var til þess að þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.

Mældist þá klukkustundargildið við leikskólann um 427,7 míkró­grömm á rúm­metra klukk­an 16. Í samtali við mbl.is sagði Svava S. Stein­ars­dótt­ir, heil­brigðis­full­trúi hjá heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur, töl­urn­ar hjá Lundi þær verstu sem hún hafi séð í Reykja­vík á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert