Hlutabréfaverð félaga tengdum indversku samsteypunni Adani Group hefur verið í frjálsu falli frá því að þekktur skortsali, Hindenburg Research, birti skýrslu með ásökunum um markaðsmisnotkun og bókhaldssvindl í byrjun síðustu viku. Markaðsvirði félaganna hefur nú fallið um meira en 100 milljarða dala, eða sem nemur tæplega 14 þúsund milljörðum króna. Financial Times greinir frá.

Flaggskipið Adani Enterprises blés í gær af 2,4 milljarða dala hlutafjárútboð þrátt fyrir að hafa lýst því yfir á þriðjudaginn að áskriftir hefðu borist í 92% af lágmarksstærð söluferlisins. Ákvörðunina má rekja til þess að hlutabréfaverð Adani Enterprises hafði lækkað niður í 2.180 rúpíur en til samanburðar gat útboðsgengið lægst farið í 3.112 rúpíur.

Samsteypan sagði að það hefði ekki verið siðferðislega rétt að halda áfram með útboðið í ljósi hins fordæmalausa ástands og markaðssveiflna.

Í myndbandi sem birt var fyrir opnun markaða í morgun gerði stofnandinn og aðaleigandinn, Gautam Adani, lítið úr áhyggjum um fjárhag samsteypunnar. Ákvörðunin um að blása útboðið af mun ekki hafa áhrif á rekstur og framtíðaráform félaganna að hans sögn. Samsteypan hafi ákveðið að hætta við útboðið til að verja fjárfesta sem höfðu þegar skráð sig fyrir hlutum.

Adani Group reyndi ítrekað að draga úr áhyggjum fjárfesta síðustu daga, þar á meðal með 413 blaðsíðna svari við ásökunum Hindenburg. Einnig var leitað til nokkurra af auðugustu mönnum Indlands til að reyna að tryggja fulla þátttöku í útboðinu.