Fótbolti

Fjölnir og Selfoss enn með fullt hús stiga | Kórdrengir og Fylkir gerðu jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjölnismenn hafa unnið tvo af tveimur.
Fjölnismenn hafa unnið tvo af tveimur. Vísir/Vilhelm

Fjölnir og Selfoss hafa unnið báða leiki sína í upphafi móts í Lengjudeild Karla í fótbolta. Fjölnismenn unnu 4-1 sigur gegn Þór á meðan Selfyssingar unnu 2-1 sigur gegn Gróttu. Á sama tíma gerðu Kórdrengir og Fylkir 1-1 jafntefli.

Það var líf og fjör í leik Fjölnis og Þórs, en Andri Freyr Jónasson kom heimamönnum í Fjölni í forystu eftir 25 mínútna leik. Tveimur mínútum síðar fékk Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari liðsins að fjúka upp í stúku þegar hann fékk tvö gul spjöld á stuttum tíma fyrir kjaftbrúk.

Það sló Fjölnismenn þó ekki út af laginu því Andri Freyr Jónasson tvöfaldaði forystu þeirra stuttu fyrir hálfleik og staðan var því 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Hákon Ingi Jónsson kom Fjölni í 3-0 með marki af vítapunktinum á 53. mínútu áður en Harley Willard minnkaði muninn fyrir gestina stuttu fyrir leikslok.

Það var svo Hákon Ingi Jónsson sem rak smiðshöggið á sigur Fjölnismanna þegar hann skoraði fjórða mark liðsins á lokamínútum leiksins og gulltryggði 4-1 sigur liðsins.

Á sama tíma unnu Selfyssingar góðan 2-1 sigur gegn Gróttu á Jáverk-vellinum á Selfossi. Gary Martin og Gonzalo Zamorano skoruðu mörk Selfyssinga áður en Ólafur Karel Eiríksson minnkaði muninn stuttu fyrir hálfleik.

Að lokum gerðu Kórdrengir og Fylkir 1-1 jafntefli þar sem Daníel Gylfason kom Kórdrengjum yfir seint í fyrri hálfleik áður en Þórður Gunnar Hafþórsson jafnaði metin tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Bæði Fjölnir og Selfoss hafa nú unnið báða leiki sína í upphafi móts og sitja í fyrsta og öðru sæti deildarinnar með sex stig hvor. Fylkir hefur fengið fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum sínu, en Kórdrengir voru að ná í sitt fyrsta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×