„Hefði ekki getað endað betur“

Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum með stæl.
Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum með stæl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Þorsteinn Ólafsson, varnarmaðurinn sterki hjá Val, var eðlilega kampakátur eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla með öruggum 34:29 sigri gegn Haukum, og samanlögðum átta marka sigri.

„Þetta er náttúrulega ótrúlegt. Þetta hefði ekki getað endað betur eftir upp og niður tímabil í deildinni, að taka þetta og vinna úrslitaleikinn sannfærandi. Fullkomið,“ sagði Einar Þorsteinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Eins og hann bendir á var tímabilið sveiflukennt hjá Val en liðið endaði þó að lokum í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildinni, og óx aðeins ásmegin í úrslitakeppninni. Spurður hvort Valur hafi einfaldlega toppað á hárréttum tíma sagði Einar Þorsteinn svo vera.

„Er það ekki það sem þetta snýst um? Að vera upp á sitt besta þegar það skiptir mestu máli?“

Einar Þorsteinn Ólafsson í baráttunni við Heimi Óla Heimisson í …
Einar Þorsteinn Ólafsson í baráttunni við Heimi Óla Heimisson í fyrri Vals og Hauka á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í leiknum í kvöld var Valur með undirtökin allan leikinn eftir að hafa byrjað af gífurlegum krafti. Var lagt upp með að keyra á Haukana?

„Já að sjálfsögðu, alveg eins og við gerðum í fyrri leiknum. Þá gekk það upp og við gerðum það þá bara aftur. Við vorum ótrúlega vel stemmdir inni í klefa, í toppstandi og þá gátum við keyrt á þá,“ sagði hann.

Einar Þorsteinn ætlaði fyrst og fremst að njóta í kvöld en beðinn um að líta til framtíðar sagði hann Valsmenn ætla að mæta enn sterkari til leiks á næsta tímabili.

„Maður segir það náttúrulega að sjálfsögðu og við ætlum auðvitað að reyna það. Við sjáum bara hvað gerist á næsta tímabili. Við ætlum að reyna að toppa aftur í úrslitakeppninni þá,“ sagði Einar Þorsteinn glaðbeittur í samtali við mbl.is að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert