Ísak fór á kostum – Tottenham tapaði óvænt

Ísak Bergmann Jóhannesson kom Köbenhavn yfir gegn Lincoln Red Imps.
Ísak Bergmann Jóhannesson kom Köbenhavn yfir gegn Lincoln Red Imps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson átti stórleik fyrir Köbenhavn þegar liðið heimsótti Lincoln Red Imps í F-riðli Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Gíbraltar í kvöld.

Ísak kom Köbenhavn yfir strax á 5. mínútu og Lukas Lerager tvöfaldaði forystu Köbenhavn tveimur mínútum síðar. 

Ísak lagði svo upp tvö mörk í síðari hálfleik, fyrir þá William Böving og Rasmus Höjlund og lokatölur á Gíbraltar 4:0, Köbenhavn í vil.

Ísak Bergmann lék allan leikinn með Köbenhavn ásamt Hákoni Arnari Haraldssyni en Köbenhavn er með 12 stig og öruggt með efsta sæti riðilsins og sæti í sextán liða úrslitunum.

Þá gerðu Slovan Bratislava og PAOK  markalaust jafntefli í Slóvakíu í sama riðli en Sverrir Ingi Ingason er frá keppni vegna meiðsla hjá PAOK.

PAOK er með 8 stig, líkt og Slovan Bratislava, í þriðja sæti riðilsins en PAOK fær Lincoln Red Imps í heimsókn í lokaumferðinni á meðan Köbenhavn fær Slovan Bratislava í heimsókn.

Harry Kane skoraði mark Tottenham í kvöld.
Harry Kane skoraði mark Tottenham í kvöld. AFP

Tottenham tapaði óvænt fyrir Mura í G-riðli keppninnar í Slóveníu þar sem Tomi Horvat kom Mura yfir strax á 11. mínútu.

Ryan Sessegnon í liði Tottenham fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 32. mínútu en Harry Kane tókst þó að jafna metin fyrir Tottenham á 72. mínútu.

Það var hins vegar Amadej Marosa sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma og tryggði Mura sigurinn.

Tottenham er með 7 stig, líkt og Rennes, í öðru sæti riðilsins en Rennes er öruggt með efsta sætið og sæti í sextán liða úrslitunum með 11 stig.

Tottenham tekur á móti Rennes í lokaumferðinni á meðan Vitesse fær Mura í heimsókn en Tottenham og Rennes standa jöfn að vígi þegar kemur að innbyrðisviðureignum.

Það verður því verður það markatalan sem sker úr um það hvort liðið fer áfram í útsláttakeppnina, fari svo að þau verði jöfn að stigum, en Tottenham er með hagstæðari markatölu eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert