„Get ekki krafið drengina um meira“

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson segir dauðafæri hafa farið forgörðum á mikilvægum augnablikum í leik Íslands og Króatíu á EM karla í handknattleik í Búdapest í dag. 

„Mér finnst að við hefðum átt að vera með meiri forystu að loknum fyrri hálfleik. Hún var einungis tvö mörk en mér finnst að hún hefði auðveldlega getað verið fjögur. Í síðari hálfleik spiluðum við 7 á móti 6 um tíma og gerðum það mjög vel. Það sem ræður úrslitum á endanum er að við nýtum ekki dauðafæri á mikilvægum augnablikum, maður á móti markmanni. Þar lá munurinn,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is náði tali af honum þegar úrslitin lágu fyrir. 

Leikurinn var kaflaskiptur því Ísland náði fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Króatía vann það upp og náði fimm marka forskoti. Ísland vann það upp og jafnaði þegar innan við tíu mínútur voru eftir.

„Hvernig má annað vera? Okkur vantar níu leikmenn. Hvernig á þetta að vera annað en kaflaskipt? Það er eins og menn séu búnir að gleyma því að það vantar níu lykilmenn í liðið hjá okkur. Samt erum við að ná úrslitum eins og þessum í dag þar sem við töpum með einu marki og vorum óheppnir að mörgu leyti. Og svo unnum við Frakka. Ég get ekki krafið drengina um meira. Þeir gefa allt sem þeir eiga og hafa sýnt stórkostlegan karakter sem þeir eru búnir að sýna við fordæmalausar aðstæður,“ sagði Guðmundur en margt jákvætt var í leik íslenska liðsins í dag og liðið fékk á sig fá mörk. 

Guðmundur á hliðarlínunni í dag. Björgvin Páll Gústavsson kom aftur …
Guðmundur á hliðarlínunni í dag. Björgvin Páll Gústavsson kom aftur inn í liðið eftir einangrun. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það sýnir bara hvert við erum komnir. Núna hefðum við þurft fleiri leikmenn. Meiri orku og fleiri möguleika en við höfðum það bara ekki í dag. Það eru að koma menn inn í liðið með engum fyrirvara sem hafa ekki verið með okkur og þeir þurfa að setja sig inn í allt. Þetta er mjög, mjög erfitt,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert