Albert vildi ekki vera varamaður

Albert Guðmundsson hefur ekki leikið með landsliðinu síðan í júní …
Albert Guðmundsson hefur ekki leikið með landsliðinu síðan í júní 2022. Ljósmynd/Alex Nicodim

Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa á Ítalíu, var ekki tilbúinn til að sitja á varamannabekknum í leik Bosníu og Íslands í Zenica næsta fimmtudagskvöld, þegar þjóðirnar mætast í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari staðfesti við mbl.is í dag að þetta væri ástæðan fyrir því að Albert hefði ekki verið tilbúinn til að vera í landsliðshópnum sem í gær var tilkynntur fyrir leikina tvo gegn Bosníu og Liechtenstein.

„Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka. Eins og ég hef alltaf sagt þá er ekkert illt á milli mín og Alberts en sem þjálfari þarf ég að taka ákvarðanir. Við spilum leiki sem hreinlega öskra á okkur að nýta hæfileika Alberts, við erum öll sammála um það.

Svo eru líka leikir sem kalla á aðra hæfileika. Þegar ég tjáði honum að planið væri að hann myndi byrja á bekknum á móti Bosníu þá tjáði hann mér að hann væri ekki tilbúinn í það. Og það er stór forsenda.

Ef þú ert í landsliði í hópíþrótt þá þarftu að geta tekið þátt í því að búa til lið. Það eru mismunandi verkefni fyrir hvern og einn leikmann í hverjum hópi og við höfum átt marga leikmenn sem hafa oft þurft að sitja á bekknum. Þú þarft að geta sett hag liðsins framyfir þinn eigin hag,“ sagði Arnar.

Væri léleg manneskja ef ég setti slíka afarkosti

Spurður hvort eitthvað væri til í fréttum um að Albert hefði óskað eftir leyfi frá leikjunum af fjölskylduástæðum en ekki fengið, svaraði Arnar að ekkert væri til í því.

„Alls ekki. Ef menn gefa ekki kost á sér af fjölskylduástæðum, þá hringja þeir í landsliðsþjálfarann og láta vita. Þetta er alls ekki ástæðan með Albert akkúrat núna. Ég væri mjög lélegur þjálfari og léleg manneskja ef ég setti fólki slíka afarkosti.

Staðan er nákvæmlega sú sem ég sagði. Ég lagði fyrir hann plan, hann var ekki tilbúinn í það, vildi fá stærra hlutverk, og ég get ekki lofað ákveðnum leikmanni ákveðna stöðu eða mínútur. Þannig gengur þetta ekki í hópíþrótt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert