Seinni bylgjan ekki jafn banvæn í Bretlandi

Ólíklegra er að fólk sem lagt er inn á gjörgæslu …
Ólíklegra er að fólk sem lagt er inn á gjörgæslu falli frá en áður. AFP

Gögn frá gjörgæsludeildum í Bretlandi benda til þess að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins verði ekki jafn banvæn þar í landi og sú fyrsta. Líkur á því að Covid-sjúklingar falli frá þegar  þeir liggja á gjörgæslu hafa minnkað verulega. Þá hafa líkur á því að Covid-sjúklingar lifi í að minnsta kosti 28 daga aukist úr 61% í fyrstu bylgju í 72% í annarri bylgju. 

Telegraph greinir frá þessu.

Minni líkur á dauðsföllum fyrir þá sem leggjast inn á gjörgæslu vegna Covid-19 eiga við um alla aldurshópa þó þróunin sé líklega best fyrir þá sem eru yngri en 70 ára. Líkur á að fólk á aldrinum 50 til 69 ára falli frá á gjörgæslu, veikt af Covid-19, er nánast helmingi minni nú en áður. Í fyrri bylgju voru dánarlíkurnar í kringum 38 prósent en nú eru þær 20 prósent. 

Fyrir þá sem eru yngri en 50 ára og leggjast inn á gjörgæslu vegna Covid-19 hafa dánarlíkurnar lækkað úr 18 prósentum í tæp 10 prósent.

Dexamethasone hafi mikil áhrif

Sérfræðingar telja að endurbætur á meðhöndlun sjúklinga séu farnar að hafa veruleg áhrif, sérstaklega hvað varðar steralyfið Dexamethasone. Lyfið kemur í veg fyrir að ónæmiskerfið fari á yfirsnúning en það getur leitt af sér líffærabilun. 

Lyfið er gjarnan er notað til að meðhöndla liðagigt, alvarlegt ofnæmi og astma. 

„Ég geri ráð fyrir því að um helmingur betrumbótanna hvað varðar dánarlíkur sé Dexamethasone að þakka,“ sagði Paul Hunter, prófessor í læknisfræði við Háskólann í Austur Anglíu í samtali við Telegraph. 

„Þetta er mjög áhugavert. Það sem náði til mín er að jafnvel þó það sé ekki mikill munur á fólkinu þegar það leggst inn þá eru dánarlíkurnar að lækka. Fyrir alla undir 70 ára aldri hafa líkur á dauðsföllum nánast helmingast. Ef þú ert yngri en 70 ára og þarft á gjörgæslumeðferð að halda eru miklar líkur á því að þú lifir af.“

Dexamethasone er á meðal þeirra lyfja sem gefin eru sjúklingum sem veikir eru af Covid hérlendis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert