Nanna Björk Ásgrímsdóttir, fjárfestir og stór hluthafi í Streng, og Sigurður Kristinn Egilsson voru kjörin í stjórn Skeljungs á aðalfundi félagsins í gær. Þau koma inn í stjórnina fyrir Dagnýju Halldórsdóttur og Elínu Jónsdóttur, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stjórnarkjörið fór fram með margfeldiskosningu.

Stjórn Skeljungs skipar því:

  • Jón Ásgeir Jóhannesson, formaður stjórnar
  • Birna Ósk Einarsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Nanna Björk Ásgrímsdóttir
  • Sigurður Kristinn Egilsson
  • Þórarinn Arnar Sævarsson

Á aðalfundinum var einnig samþykkt að félagið skyldi greiða 350 milljónir króna í arð til hluthafa, sem er 44% af hagnaði ársins 2020.

Tilnefningarnefnd Skeljungs hafði mælt með að Dagný Halldórsdóttir yrði kjörin í stjórnina umfram Nönnu Björk, en Nanna Björk er einn stærsti hluthafi Strengs sem eignaðist í byrjun ársins meirihluta í Skeljungi.

Nanna Björk hefur verið í eigin fjárfestingum frá árinu 2006 til dagsins í dag. Þar áður stóð hún að rekstri fjölmargra verslana, meðal annars All Saint, Whistles, Karen Millen, Shoe Studio og Warehouse. Einnig starfaði hún við almenn lögfræðistörf hjá Kaupþingi árin 2001-2003 og á Lex lögmannsstofu árin 1999-2000. Nanna Björk lauk LLM Mastersgráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Stokkhólmi árið 2001 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið áður.

Sigurður Kristinn stofnaði Arcur Finance sem sérhæfir sig m.a. í fjármögnun fyrirtækja ásamt ýmsum sérhæfðum verkefnum. Hann er stjórnarformaður í NeckCare Holding fyrir hönd fjárfesta, sem er nýsköpunarfyrirtæki og sérhæfir sig í greiningu á hreyfigetu í hálsi. Frá 1998-2007 starfaði Sigurður Kristinn á eignastýringasviði Kaupþings banka og var síðustu fimm árin yfirmaður eignastýringar fagfjárfesta sem sérhæfir sig í stýringu eigna fyrir lífeyrissjóði, fyrirtæki og stofnanir. Hann starfaði á eignastýringasviði bankans erlendis árin 2007-2010 og leiddi uppbyggingu á alþjóðlegu sjóðasviði fyrir fagfjárfesta.

Árin 2010-2016 veitti Sigurður Kristinn forstöðu eignastýringar og sérhæfðra sjóða hjá ALM Verðbréfum sem fjármagnaðir voru af lífeyrissjóðum. Þá hefur hann setið í stjórn Meniga fyrir hönd fjárfesta. Sigurður Kristinn útskrifaðist sem véla-og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1998 og er auk þess með löggildingu í verðbréfaviðskiptum.

Verður þriðji fulltrúi Strengs í stjórninni

Fjárfestingafélagið Strengur eignaðist ríflega 50,06% hlut í Skeljungi, með tilliti til eigin bréfa olíufyrirtækisins, í byrjun ársins í kjölfar þess að hafa gert yfirtökutilboð á Skeljung. Strengur er í eigu þriggja fjárfestahópa. Félagið RES 9, sem er að meirihluta í eigu Nönnu Bjarkar og eiginmanns hennar Sigurðar Bollasonar, á 38% hlut í Streng. Félag sem er í meirihlutaeigu 365 á 38% í Streng, en 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs. Þá á félag í eigu Þórarins og Gunnars Sverris Harðarsonar 24% hlut í Streng.

RES 9 var því eina félagið innan Strengshópsins þar sem hluthafi sat ekki í stjórn Skeljungs. Eftir aðalfundinn í gær eiga öll þrjú félögin fulltrúa í stjórninni.

Strengshópurinn hefur boðað miklar breytingar á rekstri Skeljungs. Félagið standi á tímamótum vegna fyrirsjáanlegrar minni eldsneytissölu í kjölfar orkuskipta. Þá vill Strengur að Skeljungur selji eignir, meðal annars til að greiða út hluthöfum sem nýta á í að greiða niður lán sem tekin voru til að fjármagna kaupin á Skeljungi. Strengur hefur einnig lýst vilja til að afskrá Skeljung úr Kauphöll Íslands. Því hefur þess verið vænst að hópurinn vilji fá þriðja fulltrúa sinn í stjórn félagsins og ná þannig meirihluta í stjórninni og í kjölfarið framkvæma boðaðar breytingar á rekstri félagsins.

Leiðrétt: Í upphaflegu fréttinni stóð að hluthafar Skeljungs hefðu farið gegn tillögum tilnefningarnefndar með því kjósa inn Nönnu Björk fram yfir Sigurð Kristinn í stað Elínar Jónsdóttur sem gaf ekki kost á sér. Rétt er þó að Sigurður Kristinn var einnig kjörinn í stjórn félagsins í gær, en Dagný Halldórsdóttir var hins vegar ekki endurkjörin. Nefndin hafði tilnefnt til stjórnar alla sitjandi stjórnarmenn sem gáfu kost á sér, auk Sigurðar Kristins.