Rússar fá ekki að keppa á EM

Frá viðureign Íslands og Rússlands í undankeppni HM í nóvember …
Frá viðureign Íslands og Rússlands í undankeppni HM í nóvember 2021. Rússum var vísað úr þeirri keppni fyrr í þessari viku. Ljósmynd/FIBA

Körfuknattleikssamband Evrópu, FIBA Europe, tilkynnti í dag að það myndi fara að fordæmi Alþjóða körfuknattleikssambandsins og vísa Rússum úr lokakeppni Evrópumóts karla sem fer fram síðar á þessu ári.

Þá eru bæði Rússar og Hvít-Rússar útilokaðir frá þátttöku í Evrópumótum í hinum ýmsu aldursflokkum, sem og Evrópumótum félagsliða á keppnistímabilinu 2022-23, vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Rússar áttu að vera í A-riðli EM sem leikinn verður í Tbilisi í Georgíu í september en það verður Svartfjallaland sem kemur inn í lokakeppnina og í þann riðil í þeirra stað.

Evrópumótið er haldið í fjórum löndum, Tékklandi, Georgíu, Ítalíu og Þýskalandi, og hefst 1. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert