Ekki nóg að vera svalur á Twitter

Sigmar Guðmundsson á Alþingi.
Sigmar Guðmundsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tólf stjórnarþingmenn, þar af þrír ráðherrar, eru ekki sammála þeim hörðu takmörkunum sem þeirra eigin ríkisstjórn setur á landsmenn. Varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi leiðir skrúðgönguna og krefst afsagnar sóttvarnalæknis á milli þess sem hann reynir að koma í veg fyrir að börn verði bólusett,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra flutti munnlega skýrslu um stöðuna í kórónuveirufaraldrinum og sköpuðust umræður í kjölfarið.

Þingmenn tala og tala en gera ekkert

Sigmar benti á að samkvæmt nýlegri frétt efast 12 af 17 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um réttmæti harðra sóttvarnaaðgerða.

Við heyrum þessa þingmenn ítrekað tala gegn ákvörðunum eigin ríkisstjórnar. Þeir tala og tala en gera ekki neitt. Þessir 12 þingmenn, og þar af þrír ráðherrar, hafa raunverulega völd í þessu máli en þeir kjósa að beita því valdi ekki, hvorki við ríkisstjórnarborðið né sem þingflokkur. Þeir tala fallega og af innlifun um frelsi og mannréttindi og benda ítrekað á allsvakalegar afleiðingar af hörðum sóttvarnaráðstöfunum, félagslegar og andlegar afleiðingar, og tugmilljarða útgjöld ríkissjóðs. En það er ekki nóg að vera svalur á Twitter; að standa bara með frelsinu í orði en ekki í athöfnum er hræsni,“ sagði Sigmar.

Hann spurði hvers vegna heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra segja að sátt sé um þessar hörðu aðgerðir innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokka þegar augljóst er að svo er ekki.

Skaðar það ekki sóttvarnamarkmið ríkisstjórnarinnar að einstaka ráðherrar tali einbeitt, oft og opinberlega um og gegn eigin ákvörðunum?“ spurði Sigmar.

Þarf að finna ákveðið jafnvægi

Willum sagði að það þyrfti að vera jafnvægi milli frelsis og takmarkana. 

Af hverju erum við að þessu öllu saman? Það sem mér finnst vinir mínir í ríkisstjórn gleyma þegar kemur að frelsinu er að horfa til þessa jafnvægis, sem er eðlilegt eftir því sem fram hefur undið í þessum faraldri og tölfræði farin að vekja okkur vonir um að við getum farið að létta takmörkunum í skrefum. En þá megum við ekki gleyma af hverju við erum að þessu öllu. Gefum okkur að við myndum aflétta öllu. Hvað myndi gerast? Þá myndi útbreiðsla smita verða meiri en við myndum ráða við í heilbrigðiskerfinu. Það liggur alveg fyrir þannig að það er bara ekki í boði,“ sagði Willum.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Willum sagði fólk ræða sér til samstöðu í ríkisstjórninni. „Þegar koma síðan misvísandi skilaboð í framhaldinu. Auðvitað má fólk hafa ólíkar skoðanir, skárra væri það nú, en ég held að það sé aldrei gott og að það rugli umræðuna, það grefur undan þeim aðgerðum sem verið er að fara í vegna þess að samstaðan er mikilvæg,“ sagði Willum og bætti að mikilvægt væri að hafa trú á því sem þarf að gera.

Ekki óeðlilegt að fólk hafi skoðanir

Sigmar sagði að sér þætti áhugavert að heyra heilbrigðisráðherra lýsa því að einstaka ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu í raun og veru að grafa undan markmiðum stjórnarinnar.

„Það er eiginlega ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi og maður þarf svo sem ekkert að fara í neinar túlkanir á því, hann sagði þetta nánast bara beinlínis og fullum fetum,“ sagði Sigmar.

Willum sagði ekkert óeðlilegt við það að fólk hefði ólíkar skoðanir og benti á að enginn í ríkisstjórninni sé sérfræðingur á sviði sóttvarna og tekið væri mið af tillögum sóttvarnalæknis.

„Hversu hratt okkur tekst síðan að aflétta takmörkunum er síðan spurning en öll myndum við helst vilja fara bara til fyrra horfs og okkar venjulega daglega lífs og skárra væri það nú ef fólk hefði ekki skoðanir á þessu. En við megum bara ekki gleyma því að við þurfum að koma okkur í gegnum þetta þannig að heilbrigðiskerfið ráði við stöðuna dag frá degi. Það er megináherslan hér,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert