Spúði ösku í 3 kílómetra hæð

Eldgos hófst á eyjunni Halmahera í austurhluta Indónesíu í nótt. Öskuskýið náði rúmlega þrjá kílómetra upp í himininn og var fólk beðið um að halda sig fjarri. 

Eldgosið hófst klukkan 00.37 á staðartíma í fjallinu Ibu. Eldgosinu lauk síðan þremur mínútum síðar. 

Almenningur var beðinn um að halda sig frá fjallinu í að minnsta kosti tveggja kílómetra radíus. Enginn þurfti þó að yfirgefa heimilið sitt.

Yfirvöld gáfu út þau tilmæli að fólk sem hygðist vera úti við nærri fjallinu skyldi bera andlitsgrímur og hlífðargleraugu vegna öskufalls. 

Eldgosavirkni er algeng á Indónesíu. Fyrr í mánuðinum gaus fjallið Ruang í norður Sulawesi. Myndskeiðið hér að ofan er frá því gosi. 

Það eldgos leiddi til þess að þúsundir manna þurftu að yfirgefa heimili sín. Þá þurfti að loka flugvellinum í borginni Manado, sem er í meira en 100 kílómetra fjarlægð frá Ruang, í nokkra daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert