Magnús Júlíusson mun láta af störfum sem aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, verði hann kjörinn í stjórn Festi á hluthafafundi sem fer fram þann 14. júlí næstkomandi. Hann staðfestir þetta í samtali við Kjarnann. Magnús er einn af níu frambjóðendum í stjórnina sem var tilnefndur af tilnefningarnefnd Festi.

Sjá einnig: Níu tilnefnd í stjórn Festi

Í lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands er tekið fram að störf æðstu stjórnenda og aðstoðarmanna ráðherra teljist sem full störf. Þeim sé óheimilt að sinna öðrum störfum samhliða störfum í Stjórnarráðinu.

„Það er alveg skýrt að þetta fer ekki saman og ég mun hætta sem aðstoðarmaður hljóti ég kjör í stjórnina,“ hefur Kjarninn eftir Magnúsi.

Hann stofnaði Íslenska orkumiðlun sem sérhæfði sig í raforkusölu á almennum raforkumarkaði. Festi keypti félagið í mars 2020 og heitir það nú N1 Rafmagn. Magnús tók í kjölfarið við sem forstöðumaður orkusviðs N1 sem þá var nýstofnað og starfaði þar til loka árs 2021 þegar hann var ráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu.

Magnús situr í stjórn álversfyrirtækisins Rio Tinto á Íslandi fyrir hönd íslenska ríkisins en hann var tilnefndur af ráðherra. Hann segist því ekki sjá sama hagsmunaárekstur hvað varðar stjórnarsetu í Rio Tinto eins og í tilviki Festi.