Dæmdir fyrir mannrán og árás

Sarpsborg er rúmlega 70 kílómetra suður af Ósló. Sex menn …
Sarpsborg er rúmlega 70 kílómetra suður af Ósló. Sex menn á aldrinum 17 til 22 ára hlutu í dag refsidóma sem ná samtals tveimur árum, sá yngsti sérstakt ungmennaúrræði, en komi tíu mánaða dómur í staðinn standi hann ekki sína plikt. Ljósmynd/Wikipedia.org/Thomas M. Hansen

Sex ungir menn, 17 til 22 ára, hlutu í dag samtals tveggja ára refsidóm í Héraðsdómi Søndre Østfold í Sarpsborg í Noregi fyrir mannrán og líkamsárás sem beindist gegn 14 ára pilti er þeir töldu sig eiga óuppgerðar sakir við í kjölfar þess að sá sló félaga þeirra í andlitið, 21 árs gamlan mann.

Hlaut sá yngsti sexmenninganna sérstaka ungdómsrefsingu, tiltölulega nýtt úrræði í norskum hegningarlögum, sem krefst þess að hann hlíti ströngum skilyrðum í eitt ár, en gangi þó laus, en vararefsing er tíu mánaða fangelsi standi hann ekki sína plikt.

Sexmenningarnir gáfu ólíkar skýringar á atburðum þriðjudagskvöldsins 28. júlí í fyrra, en fyrir dómi taldist það þó sannað að þeir hefðu numið fórnarlamb sitt á brott frá bifreiðastæði verslunar í Alvim í Sarpsborg og farið með það í Kalnesskóginn þar sem þeir veittust að drengnum með höggum og spörkum auk þess að beina loftbyssu að höfði hans og hóta að skjóta hann með henni „hér og nú“.

Samverknaður allra sex

Hlaut drengurinn ýmsa áverka, meðal annars brákað rifbein og rifna hljóðhimnu, eftir því sem fram kemur í dómnum. Varði ofbeldið í 15 til 25 mínútur og óttaðist, sá sem misgert var við, um líf sitt og hefur þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar í kjölfar atburðarins.

„Einu gildir hver gerði hvað meðan á ofbeldinu stóð, þar sem um samverknað allra sex var að ræða,“ segir í dómsorði einróma niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms. Hilde Jæger, réttargæslumaður þess er fyrir árásinni varð, segir skjólstæðingi sínum enn sem komið er aðeins hafa verið kynntur dómurinn munnlega.

„Fyrstu viðbrögð hans eru léttir yfir að réttarhöldunum sé lokið og dómur liggi fyrir,“ segir Jæger og kveður aðalmeðferðina og tímann fram að henni hafi verið skjólstæðingnum þungbær. „Meðal annars vegna þess að persóna úr hans vinahópi kom fyrir dóminn sem vitni og tjáði sig þar um málavöxtu auk þess sem málsmeðferðin vakti upp minningar um það sem hann mátti þola. Nú er það vilji hans að leggja þennan atburð að baki sér og halda áfram,“ sagði réttargæslumaðurinn við norska dagblaðið VG eftir dómsuppkvaðningu í dag.

VG

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert