Sport

Forseti frönsku Ólympíunefndarinnar segir af sér einu ári fyrir ÓL í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brigitte Henriques er hætt störfum aðeins fjórtán mánuðum fyrir Ólympíuleikana í París.
Brigitte Henriques er hætt störfum aðeins fjórtán mánuðum fyrir Ólympíuleikana í París. Getty/Aurelien Meunier

Það er risastórt ár fram undan hjá frönsku Ólympíunefndinni enda fara Sumarólympíuleikarnir fram í París á næsta ári. Þess vegna kemur ákvörðun forseta hennar sumum á óvart.

Brigitte Henriques, forseti frönsku Ólympíunefndarinnar (CNOSF), sagði starfi sínu lausu á ársþingi sambandsins í dag.

Henriques sagði frá ástæðum fyrir þessu á ársþinginu en það var lokað fyrir fjölmiðlamönnum. Það er vitað að hún mun hætta störfum 29. júní næstkomandi.

Hún hefur fengið á sig gagnrýni og meðal annars kallaði fyrrum forseti hennar, Denis Masseglia, eftir afsögn hennar.

Henriques snéri aftur til starfa í desember eftir að hafa verið í tveggja mánaða veikindaleyfi sem hún sagði komið til vegna andlega ofbeldis frá Didier Seminet, fyrrum framkvæmdastjóra CNOSF.

Astrid Guyart, sem var ritari Ólympíunefndarinnar, mun taka við tímabundið þangað til að nýr forseti er kosinn. Það verður að gerast á næstu þremur mánuðum.

Ólympíuleikarnir í París fara fram 26. júlí til 11. ágúst 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×