Haustmeistaramótið í Svíþjóð nálgast

Haustmeistaramót RLCS nálgast óðfluga.
Haustmeistaramót RLCS nálgast óðfluga. Skjáskot/Rocket League

Haustmeistaramót Rocket League Championship Series, eða RLCS, fer fram á LAN-viðburði í Stokkhólmi dagana 8. - 12. desember næstkomandi. Er þetta fyrsti LAN-viðburður RLCS í langan tíma og er nú komið á hreint hvaða sextán lið keppast um haustmeistaratitilinn.

Keppt er á sjö svæðum í RLCS og fóru fram undankeppnir á öllum svæðum. Voru sæti laus í haustmeistramótinu fyrir fimm lið frá Norður-Ameríku, fimm frá Evrópu, tvö frá Eyjaálfu, tvö frá Suður-Ameríku, eitt frá Asíu og Kyrrahafssvæðinu, og eitt frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku. 

Sjöunda svæðið sem keppt er á er Afríka sunnan Sahara, en þar sem það er minnsta svæðið og inniheldur fáa keppendur fær það svæði ekki sæti í haustmeistaramótinu.

Átta lið komast áfram í úrslitakeppni

Það eru liðin NRG, G2, FaZe Clan, Team Envy, Complexity Gaming, Endpoint CeX, Dignitas, Team BDS, SMPR Esports, Team Vitality, Ground Zero Gaming, Renegades, FURIA, eRa Eterenity, Tokyo Verdy og Sandrock Gaming sem munu mæta til Svíþjóðar og keppast um haustmeistaratitil RLCS.

Íslenski þjálfarinn OSM var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti ásamt liði sínu, Pulse Clan, í haustmeistaramótinu, en þeir töpuðu á móti Tokyo Verdy í lokaleik undankeppni Asíu og Kyrrahafssvæðisins. 

Eins og áður segir hefst keppni 8. desember og verður keppt eftir svokölluðu swiss-sniði, en að swissi loknu fara átta efstu liðin áfram úrslitakeppni sem er einföld útsláttarkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert