Hann getur gert mörk úr engu

Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kári Kristján Kristjánsson var kátur eftir sigur ÍBV á Haukum, 29:26, í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla á Ásvöllum í kvöld.

„Það er nokkuð ljóst að við ætlum að klára þetta á föstudaginn. Það var mikil barátta í kvöld, lítið um mörk framan af og við einhvern veginn tróðum þessu í gegn. Enn og aftur þegar við breytum í 5-1 þá förum við að vinna boltann og verja markið okkar betur," sagði Kári við mbl.is eftir leikinn.

„Rúnar er bara einn allra besti handboltamaðurinn á Íslandi. Hann nýtist okkur alveg ótrúlega vel. Hann er leikmaður sem getur gert mörk úr engu og það er rosalega gott að hafa svoleiðis leikmann. Svo erum við hinir leikmennirnir bara til halds og trausts,“ sagði Kári hlæjandi spurður um frammistöðu Rúnars Kárasonar í leiknum en hann skoraði 11 mörk fyrir ÍBV. 

„Okkar lykill að sigrinum í kvöld er að við erum allan leikinn að sækja mikið inn á miðjuna og náum síðan að opna völlinn betur í síðari hálfleik sem skapar kjöraðstæður fyrir okkur í einn á einn og þá byrjum við bara að skora miklu meira. Þá var eftirleikurinn þannig séð auðveldur.”

Þið ætlið væntanlega að taka titilinn á heimavelli á föstudaginn?

„Já, við fáum tækifæri til að klára þetta heima og það verður þjóðhátíð á föstudaginn í Vestmannaeyjum,” sagði Kári Kristján í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert