Mildaður dómur í kynferðisbrotamáli

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Þorsteinn

Landsréttur mildaði dóm yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot gegn stúlku, en hann hafði áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir ólögmæta nauðung og nauðgun. Maðurinn neitaði sök í málinu og taldi Landsréttur að ekki hefði verið sýnt fram á að hann hefði haldið stúlkunni nauðugri eða þröngvað henni til samræðis við sig. Hann var engu að síður fundinn sekur um að hafa stundað samfarir með stúlkunni þegar hún var ekki orðin 15 ára, en sjálfur var hann á þeim tíma rétt tæplega 17 ára.

Upphaflega var maðurinn ákærður fyrir að hafa beitt stúlkuna ólögmætri nauðung með því að hafa læst þau inni í herbergi stúlkunnar og síðar þröngvað henni til samræðis gegn vilja hennar. Taldi héraðsdómur að ákæruvaldinu hefði „tekist að sanna, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum“ þau brot sem hann var ákærður fyrir.

Landsréttur snéri þessu hins vegar við og sagði að bæði stúlkan og maðurinn hefðu verið trúverðug í framburði sínum. Þá væri framburður vitna og skýrslur sérfræðinga „einvörðungu byggð á endursögn A [stúlkunnar] af því sem gerðist og væri ekki til að dreifa öðrum sýnilegum sönnunargögnum sem studdu framburð A.“

Maðurinn játaði að hafa átt samfarir við stúlkuna og þar með að hafa brotið lög, en að ekki væri um nauðgun að ræða. Þá var hann jafnframt sýknaður um að hafa tekið um háls stúlkunnar, slegið höfði hennar í vegg og handleikið hníf í því skyni að hræða eða ógna henni, en það var meðal þess sem hann var upphaflega ákærður fyrir. Tekið er fram í dóminum að saksóknari fallist á sýknu þess hluta.

Maðurinn er sem fyrr segir fundinn sekur um samræði við stúlkuna meðan hún er undir 15 ára aldri. Er ákvörðun refsingar hins vegar frestað og verður hún látin niður falla að liðnum tveimur árum. Þá var honum gert að greiða henni 400 þúsund krónur í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert