Gæti færst meiri kraftur í eldgosið

Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst 16. mars.
Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst 16. mars. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Kvikusöfnun undir Svartsengi er komin yfir tíu milljónir rúmmetra samkvæmt líkanreikningum og heldur land áfram að rísa.

Þetta segir Bjarki Már Kaldalóns, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina heldur áfram að malla og hafa litlar breytingar orðið á því í nótt.

Smá skjálftavirkni hefur mælst við gosstöðvarnar og rétt norðvestan við Grindavík. Að sögn Bjarka tengjast þeir skjálftar líklega spennubreytingum vegna landrissins við Svartsengi.

Auðveldasta leiðin upp í gegnum gosrásina

Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi. Rétt áður en kvikan hefur farið af stað hefur iðulega hægst á landrisinu.

Bjarki segir of snemmt að segja til um hvort hraði landrissins nú hafi minnkað.

„Við getum alveg búist við því að það færist meiri kraftur í eldgosið og líklegast er að kvikan komi upp á Sundhnúkagígaröðinni. Þar er opið og auðveldasta leiðin fyrir kvikuna að leita upp á yfirborðið,“ segir Bjarki um þær sviðsmyndir sem koma til greina hlaupi kvikan úr kvikuhólfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert