Vildu ekki halda enska landsliðsmanninum

Conor Coady í baráttu við Dominic Solanke í leik Everton …
Conor Coady í baráttu við Dominic Solanke í leik Everton og Bournemouth um síðustu helgi. AFP/Peter Powell

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur ákveðið að nýta sér ekki forkaupsrétt á enska landsliðsmanninum Conor Coady, sem lék með liðinu að láni frá Wolverhampton Wanderers á nýafstöðnu tímabili.

Coady, sem á tíu A-landsleiki að baki fyrir England, var í stóru hlutverki í vörn Everton framan af tímabili en lék aðeins sex leiki í ensku úrvalsdeildinni eftir að Sean Dyche tók við starfinu af Frank Lampard í janúar síðastliðnum.

Þar á meðal lék hann allan leikinn í 1:0-sigri á Bournemouth í lokaumferð deildarinnar um síðustu helgi, þar sem Everton tókst að halda sæti sínu.

Everton bauðst að kaupa hinn þrítuga Coady á 4,5 milljónir punda að tímabilinu loknu en hefur afráðið að nýta sér ekki þann kost og snýr hann því aftur til Úlfanna.

Portúgalski vinstri bakvörðurinn Rúben Vinagre, sem var að láni hjá Everton frá Sporting í Lissabon, heldur aftur til síns heima. Hann lék einungis fjóra leiki í öllum keppnum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert