Lífið

Oddvitaáskorunin: Borðaði djúpsteiktan krókódíl innan um kakkalakka

Samúel Karl Ólason skrifar
Valgerður og dæturnar.
Valgerður og dæturnar.

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2022 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í sveitarfélögum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Valgerður Björk Pálsdóttir leiðir lista Beinnar leiðar í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Hún er 35 ára gömul, alin upp í Keflavík en býr í Njarðvík í dag ásamt unnusta og tveimur 5 ára dætrum. Valgerður er doktorsnemi og stundakennari við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands en hún rannsakar viðhorf kjörinna fulltrúa til lýðræðis og aukinnar þátttöku almennings í stefnumótun og pólitískri ákvarðanatöku.

Klippa: Oddvitaáskorun - Valgerður Björk Pálsdóttir

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Reykjanesið og Hellnar á Snæfellsnesi.

Er eitthvað lítilvægt sem fer þó í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt að sé lagað?

Það er kannski helst eitthvað tengt skipulagi bæjarins sem er þó alltaf að þróast til betri vegar.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál sem gæti þótt skrítið?

Ég hef haft óeðlilega mikinn áhuga á nöfnum síðan ég var barn. Lék mér oft ein við skrifborðið með íslensku nafnabókina, setti saman tvö nöfn og skrifaði þau niður. Ákvað t.d. nafn annarar dóttur minnar þegar ég var 14 ára.

Hver eru þín minnistæðustu samskipti við lögregluna?

Án efa þegar lögreglumaður í Úkraínu bað um númerið mitt til að bjóða mér á deit. Ég var í kosningaeftirliti á vegum utanríkisráðuneytisins og ÖSE í Úkraínu árið 2015 og þrátt fyrir spillingu og alls konar áskoranir, er haldið mjög vel utan um framkvæmd kosninga. Það þýðir að allir kjörkassar fá lögreglufylgd á talningastað og voru því margir lögregluþjónar á svæðinu þar sem við vorum að vinna okkar eftirlitsvinnu. Einn lögreglumaður kom upp að mér og spurði mig um númerið og ég, frekar hissa, hélt ég væri að gera eitthvað af mér, gaf honum ID númerið sem mér hafði verið úthlutað af ÖSE. Hélt hann væri að fara kvarta undan mér en neinei, hann meinti bara símanúmerið...

Hvað færðu þér á pizzu?

Þegar ég panta mér pizzu er ég mjög basic og vil helst bara skinku, sveppi og mikið oregano. Þegar ég geri mína eigin pizzu heima geri ég yfirleitt grænmetispizzu, þá set ég grillaðan kúrbít, grillaða papriku, vorlauk, tómata og salthnetur.

Hvaða lag peppar þig mest?

Bulletproof með La Roux.

Hvað getur þú tekið margar armbeygjur?

Svona 7 mjög vandaðar þröngar á tánum. Annars mun fleiri á hnjánum.

Göngutúr eða skokk?

Bæði svipað leiðinlegt en taldi mér trú um það í Covid, þegar ég komst ekki í ræktina, að ég fílaði þetta bæði.

Uppáhalds brandari?

That‘s it. That‘s the message.

Hvað er þitt draumafríi?

Langar mjög til Georgíu. Líður mjög vel í Austur Evrópu og er hrifin af löndunum sem tilheyrðu Sovétríkjunum. Myndi skoða Tbilisi enda er ég meira í borgarferðum en sólarlanda- eða útivistarferðum. Elska að rölta um mismunandi hverfi borga og sjá hvernig fólk býr.

Hvort fannst þér 2020 eða 2021 vera verra ár?

Bæði fín. Við fjölskyldan vorum byrjuð að hægja vel á lífinu árið 2019, þess vegna ollu samkomutakmarkanir ekki miklum breytingum á okkar lífi. Dætur mínar elskuðu að mæta annan hvern dag á leikskólann með fáum börnum og fá svo að vera í fríi hinn daginn með mömmu eða pabba.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Það er mjög breytilegt. Núna er það The Weeknd.

Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?

Á einum og sama deginum á ferðalagi um suðurríki Bandaríkjanna skaut ég úr riffli og borðaði djúpsteiktan krókódíl innan um fjölda kakkalakka á veitingastað.

Ef það væri gerð kvikmynd um ævi þína, hver ætti að leika þig? Má vera íslenskur eða útlenskur.

Aníta Briem.

Hefur þú verið í verbúð?

Nei.

Áhrifamesta kvikmyndin?

Love and Basketball. Við vinkonurnar og systir mín elskuðum þessa mynd og enduðum allavega fjórar á því að fara út í skiptinám til Bandaríkjanna í high school og spila körfubolta.

Áttu eftir að sakna Nágranna?

Er það semsagt enn í gangi? Ég hljóp oft heim í hádeginu í grunnskóla til að ná Nágrönnum. Eru Karl og Susan og Toadie bara enn going strong?

Ef þú yrðir að flytja úr þínu sveitarfélagi, hvert myndir þú helst vilja fara?

Reykjavíkur innalands – annars Berlínar.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Tindastóll með Úlfur Úlfur og Sverri Bergmann. Þetta lag hefur verið á repeat undanfarnar vikur, en það var stranglega bannað á mínu heimili þegar Njarðvík var að spila við Tindastól í undanúrslitum í körfuboltanum. Maðurinn minn er grjótharður Njarðvíkingur og var ekki sáttur þegar dætur okkar voru komnar með þetta á heilann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×