Körfubolti

„Vorum bara að vinna þá á varnarleik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. Vísir/Vilhelm

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, var eðlilega í skýjunum eftir magnaðan sigur liðsins gegn Tindastóli í framlengdum leik í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Þetta var geggjað. Við spiluðum líka svona leik við Njarðvík í síðustu viku og hann var geggjað skemmtilegur og það er bara gaman að taka þátt í svona leikjum alveg sama hvort þú vinnur eða tapar,“ sagði Lárus jónsson, þjálfari Þórs að leik loknum.

„Þú ferð alltaf með gott bragð í munninum. Við fórum með gott bragð í munninum frá Njarðvík þó við höfum tapað þeim leik. Þá er maður svekktur, en þegar liðið þitt er að leggja allt í sölurnar þá er maður hrikalega kátur.“

Fyrir leik talaði Lárus um að líklega væri það frákastabaráttan sem myndi skilja liðin að í kvöld og eins og allt annað í leiknum var hún hnífjöfn.

„Við tókum einu frákasti meira en þeir. Eigum við ekki að segja að við höfum unnið þá baráttu? En þeir eru besta frákastaliðið í deildinni þannig að það var mjög gott hjá okkur.“

„Ég fékk góða tilfinningu eftir fyrsta leikhlutann því þá vorum við að stoppa þá mjög vel og ég var líka með rosa góða tilfinningu í hálfleik. Þeir voru með 31 stig og við vorum bara að vinna þá á varnarleik og fá töluvert opnari skot heldur en þeir.“

„Í þriðja leikhluta fannst mér við byrja vel, en svo náðu þeir mjög mikið af trasition körfum í bakið á okkur. Svo fannst mér [Antonio] Woods vera alveg svakalegur fyrir þá þegar fór að líða á leikinn.“

Lárus hélt svo áfram að hrósa varnarleiki liðsins í leik kvöldsins.

„Frábær vörn. Mér fannst Tómar [Valur Þrastarson] vera gera rosalega vel á Woods. Svo fannst mér vera smá tímapunktur þar sem þeir náðu yfirhöndinni, en Vinnie [Shahid] fer út af hjá okkur og þá fórum við að láta boltann flæða aðeins meira og þá settum við einhverja þrista og komum okkur aftur inn í leikinn,“ sagði Lárus að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×