Enski boltinn

Orðinn 75 ára og ráðinn stjóri Crystal Palace

Sindri Sverrisson skrifar
Roy Hodgson var síðast stjóri Watford sem hann stýrði seinni hluta síðustu leiktíðar.
Roy Hodgson var síðast stjóri Watford sem hann stýrði seinni hluta síðustu leiktíðar. Getty/Marc Atkins

Roy Hodgson hefur ekki enn sagt sitt síðasta sem knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni því hann hefur verið ráðinn stjóri Crystal Palace og mun stýra liðinu út yfirstandandi leiktíð.

Hodgson, sem er 75 ára gamall, tekur við Palace af Patrick Vieira sem var rekinn á dögunum. Hodgson hefur þar með tíu daga til að koma sér inn í hlutina að nýju hjá Palace, eftir að hafa síðast stýrt liðinu 2017-2021, en nú er hlé á ensku úrvalsdeildinni vegna landsleikja. Palace hefur tapað síðustu fjórum leikjum sínum í röð og er í 12. sæti með 27 stig, aðeins þremur stigum frá fallsæti.

Eins og fyrr segir stýrði Hodgson liði Palace, sem hann var hjá sem strákur, í fjögur tímabil og endaði liðið í 11., 12., 14. og 14. sæti. Vieira tók svo við af Hodgson þegar samningur hans rann út.

Ray Lewington verður Hodgson á ný til aðstoðar sem þjálfari en Paddy McCarthy, sem stýrði Palace til bráðabirgða eftir brottrekstur Vieira, verður aðstoðarstjóri. Steve Parish, stjórnarformaður Palace, bauð Hodgson og Lewington velkomna aftur:

„Þessi staða sem við erum í er augljóslega mikil áskorun en við teljum að reynsla Roys og Rays, sem og þekking þeirra á félaginu og leikmönnum, ásamt Paddy muni hjálpa til við það bráða verkefni að halda okkur í deildinni,“ sagði Parish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×