Tekur hanskana af hillunni og tekur þátt í ævintýri Hollywood-stjarnanna

Ben Foster svekktur eftir að ljóst var að Watford væri …
Ben Foster svekktur eftir að ljóst var að Watford væri fallið úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. AFP/Daniel Leal

Knattspyrnumarkvörðurinn Ben Foster hefur ákveðið að taka hanskana af hillunni og er búinn að semja við Wrexham, velska félagið sem leikur í ensku E-deildinni, um að leika með liðinu út tímabilið.

Foster lagði hanskana á hilluna eftir síðasta tímabil, þegar hann féll úr ensku úrvalsdeildinni með Watford.

Hann lék á sínum tíma átta A-landsleiki fyrir England og lék tæplega 400 leiki í úrvalsdeildinni, flesta fyrir West Bromwich Albion.

Wrexham stefnir hátt eftir að Hollywood-leikararnir Ryan Reynold og Rob McElhenney festu kaup á félaginu í nóvember árið 2020.

Eftir að hafa styrkt sig með öflugum leikmönnum undanfarin ár er liðið sem stendur á toppi E-deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan Notts County og með leik til góða þegar fáir leikir eru eftir af tímabilinu.

Foster hefur áður leikið með Wrexham. Það gerði hann sem lánsmaður frá Stoke City tímabilið 2004/2005. Þar lék Foster 17 leiki í C-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert