Armin Laschet er arftaki Merkel

Armin Laschet.
Armin Laschet. AFP

Armin Laschet, varaformaður Kristilegra demókrata (CDU), verður næsti formaður flokksins. Kristilegir demókratar í Þýskalandi kusu sér nýjan flokksformann í morgun og tekur Laschet við af Annegret Kramp-Karrenbauer, en hún sagði af sér í febrúar á síðasta ári.

Kosningarnar áttu að fara fram í apríl, en hefur verið frestað tvisvar vegna kórónuveirufaraldursins. Kosningin nú fór fram á netinu. Þetta þýðir að Laschet tekur þar við af Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Laschet er forsætisráðherra sambandslandsins Norður-Rín Vestfalíu, og mikill stuðningsmaður Merkel. 

Í grein Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að leitin að eftirmanni Angelu Merkel Þýskalandskanslara hefur reynst erfið fyrir CDU, en hún hætti sem formaður flokksins árið 2018 og hyggst hætta sem kanslari eftir næstu þingkosningar, en þær eiga að fara fram í september.

Oftar en ekki er formaður flokksins einnig kanslaraefni hans, en það er ekki algilt, og í greiningu breska blaðsins Daily Telegraph á formannsslagnum segir að enginn þeirra þriggja sem hafa boðið sig fram í starfið þyki nægilegur bógur til þess að geta fyllt það skarð sem Merkel skilji eftir sig. Það sé því allt eins líklegt að flokkurinn muni finna einhvern annan en verðandi formann til þess að leiða hann í næstu kosningum.

Nánar er fjallað um formannskjörið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert