„Um tíu“ sagt upp hjá RÚV á síðustu fimm mánuðum

Mikill samdráttur er fyrirhugaður í tekjum RÚV fyrir næsta ár.
Mikill samdráttur er fyrirhugaður í tekjum RÚV fyrir næsta ár. mbl.is/Eggert

Um tíu starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá Ríkisútvarpinu á síðustu fimm mánuðum, þar af var þremur sagt upp í þessum mánuði. Þetta er gert í hagræðingarskyni að sögn Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra, en fyrirsjáanlegt er að tekjufall RÚV á næsta ári verði 10%.

„Um tíu segi ég af því að í einhverjum tilvikum hafa starfsmenn ekki verið í fullu starfshlutfalli og í öðrum tilvikum hefur starfshlutfall verið lækkað og störfum breytt. Það á við um að minnsta kosti fimm starfsmenn. Skerðingin á einstaka störfum er frá 30-50%.

Til viðbótar hefur starfshlutfall verið lækkað hjá starfsfólki með samkomulagi, en starfsfólki sem farið er að nálgast starfslokaaldur hefur undanfarna mánuði staðið til boða að lækka starfshlutfall um helming gegn því að halda fullum launum í þrjá mánuði á skertu starfshlutfalli,“ segir Stefán í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

Hann segir jafnframt að aðgerðir taki til allra sviða innan RÚV. Upphaflega hafi verið horft til hagræðingar í framkvæmdastjórn og stoðdeildum en svo hafi orðið ljóst að óhjákvæmilegt væri að 10% tekjufall hefði áhrif á grunnþjónustu RÚV, bæði dagskrá og fréttir, í bæði útvarpi og sjónvarpi.

Fyrr í dag var tilkynnt um uppsagnir meðal fréttamanna RÚV en Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður til margra ára, staðfesti við mbl.is í morgun að honum hafi verið sagt upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert