Gáfumst ekki upp og hættum aldrei

Tindastóll vann sætan sigur á Hásteinsvelli í dag.
Tindastóll vann sætan sigur á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Tindastóll vann í kvöld sinn annan leik í röð í Bestu deild kvenna í fótbolta þegar nýliðarnir lögðu ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum, 2:1.

Mbl.is gaf sig á tal við Bryndísi Rut Haraldsdóttur sem gaf sér tíma í viðtal þrátt fyrir að eiga það í hættu að missa af bátnum fyrir vikið.

„Baráttan var lykilatriði í dag. Við lögðum okkur 100% fram við krefjandi aðstæður. Við fengum á okkur mark á fyrstu mínútunni en gáfumst ekki upp og hættum aldrei. Það er aðallega það sem ég er ánægðust með“.

Eftir sigurinn eru Stólarnir komnir með 8 stig.

„Við reynum að taka einn leik í einu og stefnan er alltaf sett á þrjú stig úr hverjum leik. Núna erum við komnar með sex stig úr síðustu tveim leikjum sem við erum virkilega ánægðar með“.

Tindastóll kom upp í efstu deild eftir að hafa lent í öðru sæti í 1. deildinni í fyrra og það má með sanni segja að liðið sé í fínni stöðu eftir fyrstu sex umferðirnar.

„Við erum með góða tilfinningu fyrir þessu. Hefðum getað byrjað betur, fengum þrjá heimaleiki í röð sem við hefðum viljað fá meira út úr en aftur á móti erum við komnar vel í gang. Við erum jákvæðar og spenntar fyrir sumrinu. Við erum búnar að eiga góðar stundir hér í Eyjum og fólkið hérna á Eyjunni er yndislegt. Við fengum mjög góðar móttökur alls staðar þannig að við förum sáttar heim“.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur á móti Þrótti Reykjavík þann 6. júní næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert