Dýrlingarnir náðu stigi gegn Chelsea

Takumi Minamino fagnar laglegu marki sínu í dag.
Takumi Minamino fagnar laglegu marki sínu í dag. AFP

Southampton og Chelsea skildu jöfn í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Í fyrri hálfleik hafði Chelsea talsverða yfirburði en það voru þó heimamenn í  Southampton sem tóku forystuna eftir rúmlega hálftíma leik.

Þar var að verki Takumi Minamino, lánsmaður frá Liverpool. Hann fékk þá góða stungusendingu inn fyrir vörnina frá Nathan Redmond, tók laglega gabbhreyfingu sem tók Edouard Mendy í marki Chelsea úr leik og lagði boltann utanfótar fram hjá honum af stuttu færi, annað mark hans í þremur leikjum fyrir liðið.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleiknum og staðan því 1:0 fyrir Southampton þegar liðin gengu til búningsklefa.

Í síðari hálfleiknum leið ekki á löngu þar til Chelsea jafnaði metin. Á 53. mínútu braut Danny Ings klaufalega á Mason Mount innan teigs og vítaspyrna því réttilega dæmd. Mount steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1:1.

Chelsea hafði yfirhöndina það sem eftir lifði leiks en fleiri mörk voru þó ekki skoruð og sættust liðin því á jafnan hlut.

Eftir jafnteflið halda bæði lið sætum sínum í deildinni, að minnsta kosti um sinn. Chelsea er í fjórða sæti og Southampton í 13. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka