Venjubundinn göngutúr í hátíðarbúningi

Þjáðir menn úti að labba. Frá vinstri: Ingólfur Freysson, Þorkell …
Þjáðir menn úti að labba. Frá vinstri: Ingólfur Freysson, Þorkell Björnsson, Helgi Benediktsson og Halldór Valdimarsson. Ljósmynd/Regína Sigurðardóttir

Það vantaði ekki baráttuandann í félaga gönguhópsins Den Kongelige Gymnastik Forening, sem gengu fylktu liði um götur Húsavíkur í dag með fána Sovétríkjanna sálugu. Ætla mætti að það væri í tilefni baráttudags verkalýðsins, en málið er ekki svo einfalt. 

„Við erum bara gönguhópur sem fer út að ganga okkur til heilsubótar þrisvar í viku. Það hitti nú bara þannig á í dag að gangan lenti á þessum baráttudegi verkamanna og þá þótti okkur sjálfsagt að taka fánann með,“ segir Ingólfur Freysson, einn fimm félaga Konunglega fimleikasambandsins, við mbl.is. 

Ingólfur og blaðamaður voru sannfærðir um að þetta væri eina eiginlega 1. maí-gangan sem farin var í dag, þótt flokksmenn Alþýðufylkingarinnar hefðu vissulega haldið daginn hátíðlegan eins og búast mátti við.

Spurður hvort þeir félagar séu allir miklir verkalýðsbaráttumenn segir Ingólfur að þeir séu allir frá „Rauða torginu“ á Húsavík, og þögnin sem fylgir í kjölfarið gefur í skyn að þá sé nú nóg sagt. 

„Sko, það voru byggðir þarna verkamannabústaðir á sínum tíma,“ útskýrir Ingólfur. „Þetta var gjarnan kallað Rauða torgið af því þarna bjuggu helstu verkalýðs-, eigum við að segja verkalýðsforingjar þess tíma á Húsavík.“

Hátíðargangan í dag mögulega sú fyrsta af mörgum

Spurður hvort ekki skjóti skökku við að hópur sem kallar sig Den Kongelige Gymnastik Forening haldi upp á alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins og flaggi fána Sovétríkjanna svarar Ingólfur því játandi. 

„Jú, þetta er nú hálfpartinn þversögn,“ segir hann og hlær. 

Den Kongelige Gymnastik Forening telur fimm félagsmenn og þeir hafa stundað heilsurækt saman um margra ára skeið. Vegna sóttvarnatakmarkana hefur þó undanfarið fátt annað mátt gera en að fara í göngutúr og því verður það að nægja.

Ingólfur segir að ekki sé hefð hjá hópnum að halda upp á hátíðisdaga en það gæti vel breyst eftir göngu dagsins. Honum leist ágætlega á tillögu blaðamanns að halda upp á þjóðhátíðardaginn með því að ganga um Húsavík með íslenska fánann.

Hátíðardagskrá Den Kongelige Gymnastik Forening lauk þó ekki með göngunni í dag heldur var haldið 1. maí-kaffi að íslenskum sið þegar göngunni lauk. Yfirskrift kaffiboðsins var það sama og slagorð verkalýðshreyfingarinnar þetta árið: „Það er nóg til!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert