Bjórleysi á HM geri andrúmsloftið frábrugðið

Pólskir aðdáendur létu bjórleysið ekki á sig fá þegar þeir …
Pólskir aðdáendur létu bjórleysið ekki á sig fá þegar þeir hvöttu sína þjóð til dáða gegn heimsmeisturum Frakka. AFP

Áhorfendur á heimsmeistarakeppninni í Katar segja andrúmsloftið frábrugðið fyrri keppnum vegna takmarkaðs aðgengi að áfengum veigum. Þó eru skiptar skoðanir um hvort sú breyting er til batnaðar.

AFP-fréttaveitan spurði viðstadda hvort bjórbann það sem er í gildi á völlum keppninnar, og raunar víðs vegar annars staðar í furstadæminu, hafi áhrif á stemninguna innan sem utan vallar.

Framkoma stuðningsmanna vingjarnlegri

Ganverjinn, Assenso Ata Peter, segir breytinguna hafa sett jákvæðan brag á keppnina:

„Framkoma stuðningsmannanna hefur verið góð og vingjarnleg, sérstaklega vegna þess að þeir eru ekki að drekka áfengi,“ sagði hinn fjörtíu ára Ganverji og sagði breytinguna vera af hinu góða og vonaðist til þess að reglan myndi festa sig í sessi. 

Þeir stuðningsmenn sem AFP ræddi við sögðu stemninguna einstaka á …
Þeir stuðningsmenn sem AFP ræddi við sögðu stemninguna einstaka á leikjum suður-amerískra liða. Áfengisleysið hefði lítil sem engin áhrif á það. AFP

Ástralir segja áfengisleysi slæva stemninguna

Mike og Luke, sem ferðuðust til Katar frá Ástralíu, voru ekki á sama máli:

„Þetta er erfitt og slævir sannarlega andrúmsloftið. Þetta er ekki sambærilegt og mjög öðruvísi,“ er haft eftir honum 39 ára Luke.

Samferðamaður Luke, Mike, tók ekki í sama streng: „Hér er mikið af barnafjölskyldum og andrúmsloftið eftir því, börnin sjá um að syngja og tralla.“

KSÍ ekki eyland

Knattspyrnusamband Íslands hóf bjórsölu á Laugardalsvelli í sumar og í kjölfar þess hefur mikið verið rætt og ritað um hlutverk knattspyrnuleikja sem annars vegar fjölskylduskemmtunar og hins vegar gleðskapur fullorðinna.

Þekkja ekki annað

Kang Yong-ki, sem er Suður-Kóreubúi, segir áfengisneyslu bannaða í heimalandinu svo hann þekki ekki annað:

„Mig grunar þó að það væri meiri stemning ef áfengi væri leyft en almennt er þó ekki merkjanlegur munur.“

Flestir þeirra sem AFP ræddi við höfðu sömu sögu og Kang Yong-ki að segja þar sem áfengi væri bannað á völlum í heimalandi. Þau hefðu því engan samanburð.

„Ég kom hingað bara til þess að sjá Cristiano Ronaldo,“ sagði kona frá Líbanon spurð um áfengisleysið. Hún kærði sig kollótta um áfengisþurrð og skildi ekki hvers vegna tilteknar þjóðir veltu sér svo mikið upp úr þessu.

Flestir stuðningsmenn segjast engan mun finna þar sem áfengi sé …
Flestir stuðningsmenn segjast engan mun finna þar sem áfengi sé hvort eð er bannað á fótboltaleikjum í heimalandi þeirra. AFP

Áfengisleysi líklega hjálpað

Hegðun stuðningsmanna Englands í aðdraganda úrslitaleiks Englands og Ítalíu á Evrópumeistaramóti karla í knattspyrnu 2021 komst í hámæli fyrir mikil drykkjulæti. Var það sögð meðal ástæðna þess að ríkisstjórn Katar þrýsti á að bjórsala yrði bönnuð á öllum völlum keppninnar í ár.

Mark Roberts, yfirmaður bresku knattspyrnulögreglunnar, segir hegðun bæði enskra og velskra stuðningsmanna hafa verið til fyrirmyndar. Engan hafi þurft að handtaka það sem af er móti.

Hann segir andrúmsloftið á leikjum hafa verið ástríðufullt en að sama skapi vinsamlegt. 

„Það væri rangt að tengja þessa góðu hegðun stuðningsmanna alfarið við takmarkanir á áfengissölu, en ég held að þær hafi hjálpað að einhverju leyti,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Roberts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka