Taka ákvörðun um framhaldið á gossvæðinu á morgun

Morgunblaðið/Ólafur Þórisson

Viðbragðsaðilar funduðu í dag um stöðuna við gossvæðið í Geldingadölum í kjölfar þess að ný gossprunga opnaðist í dag. Gunnar Schram yfirlögregluþjónn segir að ákvörðun um framhaldið verði tekin á þriðjudagsmorgun. 

„Við vorum með stuttan stöðufund í dag þar sem var ákveðið að á stöðufundi í fyrramálið verði tekin ákvörðun um framhaldið. Dagurinn í dag er notaður til að meta aðstæður og meta til hvaða viðbragða við munum grípa,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is. 

„Við þurfum að meta það hvernig við komum að gæslu á svæðinu miðað við breyttar forsendur. Þetta breytir myndinni og viðfangsefninu. Við hlustum á það sem vísindamennirnir bera í okkur. Það verður ekki of oft sagt að þetta er hættusvæði, það er bæði gasmengunin, og svo erum við að sjá að það geta opnast nýjar sprungur án fyrirvara. Síðan er veður og aðrar aðstæður á gönguleiðinni. Að teknu tilliti til alls þessa er hægt að fullyrða að þetta er hættusvæði,“ segir Gunnar. 

Gossvæðið verður ekki opnað klukkan sex í fyrramálið líkt og gert hefur verið undanfarna daga að sögn Gunnars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert