„Ég hélt að enginn myndi stela frá mér“

Heiða Eiríksdóttir lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að þjófur stal …
Heiða Eiríksdóttir lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að þjófur stal tölvu hennar á meðan hún svaf í næsta herbergi.

Tónlistarmaðurinn Heiða Eiríksdóttir, betur þekkt sem Heiða í Unun, lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu á dögunum að brotist var inn hjá henni á meðan hún svaf og tölvu sem geymdi tvær óútgefnar plötur stolið. Hafði hún skilið dyrnar eftir ólæstar en fram á þennan örlagaríka dag hefur hún haft þá lífsspeki að hafa dyr ólæstar. Það er nú breytt. Málið fékk farsælan endi. 

„Ég var sofandi í fimm hæða blokkinni minni. Á sama tíma var eitthvað fólk í húsinu að halda partý. Einhver einstaklingur sem var þar í heimsókn, missti dómgreind, fór inn hjá mér og tók stúdíó-tölvuna mína. Ég svaf á sama tíma í næsta herbergi. Daginn eftir vaknaði ég í góðu stuði, drakk kaffi, reykti sígarettu og að talaði við vinkonu mína í síma. Þá gekk ég inn í stúdíóið mitt og sá að tölvan var farin. Í sakleysi mínu hélt ég fyrst að sonur minn sem býr í risi hér fyrir ofan hefði komið og fengið tölvuna lánaða,“ segir Heiða. Svo reyndist þó ekki vera. 

Hún segir að í fyrstu hafi hún vart trúað eigin augum. „Ég hélt að enginn myndi stela frá mér því ég er frekar góð manneskja með gott karma,“ segir Heiða. 

Hafði eitthvað ruglast 

Heiða hringdi í lögregluna en gerði sér fljótlega grein fyrir því að ólíklegt væri að hún gæti gert nokkuð. „Stuttu síðar var hringt hjá mér bjöllunni og þar voru einstaklingar sem voru ekki með lykla en vildu komast inn í blokkina. Ég sá mér leik á borði og sagði þeim frá því sem gerst hafði. Ég bað þá um að láta orðið ganga og að mig vantaði tölvuna. Svo gera þeir það bara eins og ekkert sé! Þá komust þeir að því að í sá sem stal tölvunni hafði bara eitthvað ruglast og sjái mjög mikið eftir því að hafa tekið hana. Hann skilaði svo tölvunni í gegnum þá. Þetta gerðist á innan við hálftíma,“ segir Heiða. 

Lögreglan mælir með því að allir læsi útidyrahurðinni.
Lögreglan mælir með því að allir læsi útidyrahurðinni. mbl.is/Eggert

„Maður verður að læra“ 

Til þessa segist Heiða hafa haft þá lífsýn að læsa ekki útidyrahurðinni. Hún velji það að treysta fólki í stað tortryggni í garð þeirra. Eftir að hún tilkynnti lögreglu um stuldinn hafi hún hins vegar fengið þær ráðleggingar að læsa útidyrahurðinni. „Þá sagði ég við þá að ef ég læsti hurðinni þá liði mér eins og ég byggi í New York. Þeir svöruðu mér á þann veg að heimurinn væri kannski bara þannig núna,“ segir Heiða sem hyggst ávallt læsa útidyrahurðinni héðan í frá.  „Maður verður að læra. Ég var heppin í þessu tilkviki,“ segir Heiða. 

Heiða er með eigið stúdíó heima fyrir.
Heiða er með eigið stúdíó heima fyrir.

Hún segir að áfallið hafi komið eftir á. „Ég áttaði mig betur á þessu eftir á. Einhver hafði fyrir því að fara inn og taka tölvuna og ganga með hana út á meðan ég var sofandi. Það finnst mér skelfileg tilhugsun,“ segir Heiða. Hún segir að eftir á hafi hún farið í bað en svo hafi áfallið tekið úr henni allan vind og hún sofið í fimm klukkustundir. 

Opnaði augun fyrir ástandinu 

„Þetta opnaði augu mín fyrir því hve margir eru í óreglu og hafa engan pening. Það þarf að horfast í augu við það að alls konar fólk býr á Íslandi. Jafnvel fólk sem á ekki krónu og engin úrræði. Þetta getur verið yndislegt fólk sem er að ganga í gegnum eitthvað sem maður veit ekkert um. Sá sem fór inn til mín vissi að hann hefði farið yfir strikið. En málið er að fólk er orðið örvæntingafyllra en áður í þessu Covid ástandi,“ segir Heiða.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert