Handbolti

„Fyrsti boltinn gefur manni mikið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mosfellingar fagna sigrinum á Garðbæingum.
Mosfellingar fagna sigrinum á Garðbæingum. vísir/diego

Brynjar Vignir Sigurjónsson átti frábæran leik þegar Afturelding tryggði sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikars karla með stórsigri á Stjörnunni, 35-26, í kvöld.

Brynjar varði fimmtán skot, eða 47 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig í leiknum. Hann varði meðal annars þrjú vítaköst.

„Þetta er draumur, að komast í úrslitaleikinn. Það var markmið númer eitt. Nú er bara að einbeita sér að laugardeginum og klára það,“ sagði Brynjar í samtali við Vísi eftir leikinn.

Hann byrjaði leikinn af krafti og varði fjögur fyrstu skotin sem hann fékk á sig.

„Ég tók fyrsta boltann og fyrsti boltinn gefur manni mikið. Hann kom mér í gang og ég fylgdi því eftir. Svo kom Jovan [Kukobat] flottur inn á í lokin,“ sagði Brynjar.

Þeir Jovan vörðu samtals fimm vítaköst í leiknum. „Við horfðum á nokkrar klippur en það gekk allt upp í dag.“

Afturelding mætir Haukum í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Þótt frammistaðan í dag hafi verið frábær segir Brynjar að Mosfellingar geti gert enn betur.

„Við eigum alltaf eitthvað smá inni. Við vorum allir upp á okkar besta í dag og við þurfum að vera það aftur á laugardaginn,“ sagði Brynjar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×