„Þvæla sem ekki er hægt að taka alvarlega“

„Í þessu máli skipti miklu máli að bregðast hratt við,“ …
„Í þessu máli skipti miklu máli að bregðast hratt við,“ segir lögmaðurinn. AFP/Mario Tama

Niðurstaða úrskurðarnefndar lögmanna, er varðar kröfu Ómars R. Valdimarssonar lögmanns um afsökunarbeiðni, er gegndarlaus og marklaus vitleysa sem gefur til kynna að nefndarmönnum skorti tengsl við raunveruleikann, að mati lögmannsins. 

Nefndin gerði aðfinnslur við kröfu Ómars þar sem að tímafresturinn sem hann veitti fyrir afsökunarbeiðnina þótti of knappur.

Ómar er ósáttur við þá niðurstöður og segir ansi margt óskiljanlegt koma úr „þeim fílabeinsturni“, og vísar þá til úrskurðanefndarinnar.

Það er umhugsunarefni hvort maður getur látið þessa steypu úrskurðarnefndarinnar standa óhaggaða.

Krafðist þess að ávirðingar yrðu teknar út

Málið sem vísað er til hér að ofan varðar kröfu Ómars sem hafði farið fram á afsökunarbeiðni konu vegna ummæla hennar á TikTok um meint kynferðisbrot. 

Konan hafði þá greint frá því á samfélagsmiðlinum að hafa orðið fyrir kynferðisbroti og ýmsu ofbeldi af hálfu ákveðins manns. Sá leitaði til lögmannsstofu þann 5. ágúst og hafði Ómar, lögmaður hans, samband við konuna sama dag og krafðist þess að hún myndi taka niður allar ávirðingar í garð skjólstæðings síns af samfélagsmiðlinum og að hún bæðist afsökunar í kjölfarið fyrir lok sunnudagsins 7. ágúst.

Hótaði hann lögsókn ef hún myndi ekki fara að ofangreindum kröfum. Þá ráðlagði hann henni að leita sér lögmannsaðstoðar vegna ofangreindra krafna.

Skammur tími veittur

Konan kvartaði undan kröfunum til úrskurðarnefndar og var niðurstaðan sú að háttsemi hans hafi verið aðfinnsluverð. Var þá vísað til þess að konan hefði fengið skamman tímafrest til að bregðast við og að fresturinn sem veittur var hafi verið utan almenns skrifstofutíma lögmanna.

„Aðfinnslur nefndarinnar byggja á því, að sá tími sem konan fékk til þess að bregðast við hafi verið of skammur, eða tveir sólarhringar, þar sem dagarnir tveir féllu utan almenns opnunartíma lögmannsstofa. Þessi nálgun hefði kannski átt við þegar sveitasíminn var og hét. Í dag eru boðleiðir endalausar og það að ekki sé hægt að ná í lögmann eftir kl 16:00 á föstudegi er þvæla sem ekki er hægt að taka alvarlega,“ segir í svari Ómars til mbl.is vegna umfjöllunar um málið.

Þarf að bregðast hratt við

„Í þessu máli skipti miklu máli að bregðast hratt við, til þess að takmarka skaðann sem ávirðingar konunnar voru að valda umbjóðanda mínum. Alvarleika ummælanna verður einnig að vega á móti frestinum sem konan fékk, enda ljóst að netníð og árásir á vefnum ganga manna á millum á ljóshraða.“

Þá segir hann umhugsunarefni hvort maður geti látið „þessa steypu úrskurðarnefndarinnar“ standa óhaggaða. 

„Það er ansi margt óskiljanlegt sem kemur úr þeim fílabeinsturni. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort ekki eigi að láta reyna á ógildingu bullsins fyrir dómi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka