„Við erum sorgmædd yfir þessu“

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum sorgmædd yfir þessu því það er erfitt að byggja upp traust aftur,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

Í yfirlýsingu Landssambands eldri borgara segir að stjórnsýsluúttekt á störfum Tryggingastofnunar ríkisins, sem leiddi í ljós að 90% lífeyrisþega fengu rangar greiðslur frá TR, sé áfall fyrir alla aðila málsins. Sérstaklega í ljósi þess að stofnunin hafi verið talin vinna vel til þessa.

„Við gagnrýnum það harðlega að erfitt sé að framfylgja lögunum. Lög eru einfaldlega ekki nógu vel samin ef það er ekki hægt að framfylgja þeim. Meginmarkmið laganna frá 2017 er að einfalda kerfið en það hefur ekki gerst. Það að fólk geti ekki leitað réttar síns auðveldlega tel ég vera mjög slæma stöðu,“ segir Þórunn.

Áttu að vera til einföldunar en skapa vandræði

„Í úttektinni er bent á hvað núgildandi lög um lífeyri eru ógagnsæ og erfið til að vinna eftir. Er sú niðurstaða alveg í þeim anda sem við hjá Landsambandi eldri borgara höfum bent á. Lögin frá 2017 áttu að vera til einföldunar, en gera það ekki. Þau eru vandræði,“ segir í yfirlýsingu LEB.

Lögin kveði á um að endurreikna þurfi greiðslur til fólks ef tekjuáætlanir þess eru ekki í fullkomnu samræm við rauntekjur ársins. Endurreikningur um 90% árstekna greiðsluþega TR sé grafalvarlegt mál og bjóði heim hættu á mistökum.

Umboðsmaður lífeyrisþega „betur kominn annarsstaðar“

„Margt annað vekur athygli í skýrslu ríkisendurskoðunnar s.s. starf Umboðsmanns lífeyrisþega sem TR hefur fengið sérstaka fjárveitingu til árlega síðustu fjögur ár er ekki enn orðið að veruleika eftir 4 ár og lítið verið um rætt.

Mat okkar hjá LEB er að Umboðsmaður lífeyrisþega væri betur kominn hjá ýmsum öðrum en innanhúss hjá TR, t.d. LEB eða hjá öðrum ábyrgum aðilum sem frekar þjóna fólki til að endurskoða mál þeirra.

Nú þarf að bregðast hratt við og vinna að úrbótum svo að TR hljóti aftur fullt traust þeirra sem þangað sækja sína framfærslu,“ segir í niðurlagi yfirlýsingar LEB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert