Ekki á dagskrá að taka ákvörðun um helgina

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er komið minnisblað en ekki reglugerð og við bíðum eftir að reglugerðin komi út,“ sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ í samtali við mbl.is um þau tíðindi að íþróttir með snertingu yrðu áfram bannaðar á höfuðborgarsvæðinu og hvað það þýði fyrir Íslandsmótin í fótbolta.

„Ég veit ekki hverju við bjuggumst við, það var óljóst hvað kæmi í ljós í dag. Þetta kom í ljós og við vinnum út frá því,“ svaraði Klara aðspurð hvort niðurstaðan hafi komið sér á óvart. Hún segir ekki á dagskrá KSÍ um helgina að taka ákvörðun hvort Íslandsmótin verði blásin af eður ei. 

„Það er ekki á dagskrá. Við bíðum eftir að reglugerðin komi, svo skoðum við hana og komum til með að rýna vel í hana. Það þarf að skoða þetta vel og þá möguleika sem verða í stöðunni og hvernig spilin leggjast út.“

„Við vitum að það eru mörg sjónarmið og skoðanir í gangi um framhaldið og það er eðlilegt, þetta er stórt mál sem snertir marga. Það er ekki óeðlilegt að fólk og félög hafi mismunandi skoðanir á málunum,“ sagði Klara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert