Fótbolti

Giroud nýtti tæki­færið er Benzema fór meiddur af velli í síðasta leik Frakka fyrir EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oliver Giroud mun eflaust leiða línu Frakka á EM í sumar.
Oliver Giroud mun eflaust leiða línu Frakka á EM í sumar. Aurelien Meunier/Getty Images

Karim Benzema fór meiddur af velli er heimsmeistarar Frakka unnu 3-0 sigur á Búlgaríu í síðasta leik sínum fyrir EM í knattspyrnu sem hefst 11. júní. Oliver Giroud nýtti tækifærið en hann skoraði tvö af mörkum Frakklands í kvöld.

Benzema var nokkuð óvænt valinn í franska landsliðshóp Frakklands fyrir EM. Hann hefur ekki tekið neinn þátt í ævintýrum liðsins undanfarin ár vegna meintrar þátttöku hans í fjárkúgun á Mathieu Valbuena, fyrrum samherja hans hjá franska landsliðinu.

Talið var að Benzema yrði í stóru hlutverki hjá Frakklandi í sumar en nú gæti það verið í hættu þar sem hann fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks. Þá var staðan orðin 1-0 fyrir Frökkum þökk sé marki Antoine Griezmann eftir tæplega hálftíma.

Staðan 1-0 í hálfleik og þannig var hún þangað til á 83. mínútu þegar Giroud tvöfaldaði forystuna. Hann bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Frakklands á 90. mínútu leiksins.

Lokatölur 3-0 og Frakkarnir klárir í bátana fyrir fyrsta leik sinn á EM gegn Þjóðverjum þann 15. júní næstkomand.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×