Úkraínumenn geta ekki sigrað

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP/Alex Halada

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, lýsti þeirri skoðun sinni á efnahagsráðstefnu í Doha í Katar að honum þyki ólíklegt að Úkraínumenn geti sigrað Rússa í núverandi stríði. Það er skoðun hans að ófriðurinn geti aðeins verið leiddur til lykta með samningaviðræðum.

Málflutningur Orban er oft á tíðum mjög úr takti við aðrar bandalagsþjóðir NATO og ESB. Orban sagði að „sé horft á stöðuna raunsætt og þá staðreynd að NATO er ekki reiðubúið til að senda hersveitir, þá er það augljóst að veslings Úkraínumenn geta ekki sigrað á vígvellinum. Þetta er afstaða mín.“

Orban gegn öllum

Stjórn Orbans heldur enn nánum tengslum við Moskvu og hefur lagst gegn stækkun NATO. Ungverjar hafa ekki frekar en Tyrkir samþykkt aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu, einir þjóða.

Ungverjar hafa líka tekið dræmt í mögulega aðild Úkraínu að NATO og enn hafa samskipti ríkjanna tveggja versnað er Úkraínumenn settu ungverska bankann OTP á svartan lista, þar sem hann fjármagnaði árásárstríðið gegn Úkraínu. Í kjölfarið settu Ungverjar sig upp á móti frekari hernaðarstuðningi ESB til Úkraínu. Orban sagði að Úkraínumönnum væri nær að sýna Ungverjum virðingu og að láta ungversk fyrirtæki í friði. Al Jazeera greindi frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert