Innlent

Biðst afsökunar og lokar Sporthúsinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.
Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.

Eigandi Sporthússins, líkamsræktarstöð í Kópavogi, hefur tekið þá ákvörðun að loka stöðinni tímabundið vegna mikillar og almennrar óánægju í samfélaginu með opnun líkamsræktarstöðva. Stöðin hefur boðið upp á hóptíma undanfarna þrjá daga. 

Hann segist með ákvörðuninni axla ábyrgð og loka stöðinni með almannahag í huga. Heilbrigðisráðherra heimilaði hóptíma í líkamsræktarstöðvum í reglugerð sinni á þriðjudag í andstöðu við tilmæli sóttvarnalæknis.

Fleiri stöðvar höfðu ákveðið að bjóða ekki upp á hóptíma þrátt fyrir að reglugerð ráðherra heimilaði það og vísuðu til samfélagslegrar ábyrgðar. World Class, stærsta líkamsræktarkeðja landsins, býður upp á hóptíma auk fleiri minni stöðva víðs vegar um landið.

 

„Mikil og almenn óánægja er í samfélaginu yfir því að Sporthúsið skuli hafa nýtt þá heimild sem kveðið er á um í reglugerð heilbrigðisráðherra og opnað fyrir hóptíma, en ekki farið að tilmælum sóttvarnalæknis, þrátt fyrir að í minnisblaði hans til ráðherra hafi verið lagt til að tilteknar íþróttir gætu hafið starf með takmörkunum, svo sem CrossFit og jóga.

Í ljósi þessa tel ég að ekki hafi verið rétt að svo stöddu að opna Sporthúsið, CrossFit, BootCamp, SuperForm og aðra starfsemi hjá okkur sem kennd er í hópum,“ segir Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.

Ýmsir hafa gagnrýnt heimild líkamsræktarstöðva til að bjóða upp á hóptíma. Þeirra á meðal Björk Jakobsdóttir leikstjóri.

„Vegna skilaboða sóttvarnalæknis gegnum fjölmiðla og þeirrar miklu sundrungar sem virðist vera í samfélaginu vegna opnunar líkamsræktarstöðva hef ég ákveðið að axla ábyrgð og loka starfsemi okkar aftur, í von um að það sé rétt ákvörðun fyrir almannahag.“

Lokunin taki gildi frá og með morgundeginum. 23. október.

„Ég biðst innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hringl hefur valdið og vona að við komumst í sameiningu gegnum þessa bylgju Covid-19 veirunnar sem allra fyrst.“

Þröstur bætir við að þrátt fyrir gríðarlegan fjölda heimsókn í Sporthúsið frá því að Covid-19 hófst viti hann ekki til þess að neitt smit megi rekja til Sporthússins.

„Öll umræða um líkamsræktarstöðvar sem gróðrarstíu Covid-19 á því að mínu mati ekki við um okkar starfsemi, enda höfum við og viðskiptavinir okkar lagt gríðarlega hart að okkur við að gæta að ýtrustu sóttvörnum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×