Djokovic vann Opna ástralska

Novak Djokovic fagnar eftir að sigurinn var í höfn í …
Novak Djokovic fagnar eftir að sigurinn var í höfn í morgun. AFP/Anthony Wallace

Serbinn Novak Djokovic stóð uppi sem sigurvegari á Opna ástralska meistaramótinu í tennis með því að hafa betur gegn Grikkjanum Stefanos Tsitsipas í úrslitaleik í morgun. Djokovic hefur nú unnið mótið tíu sinnum, oftast allra.

Um leið jafnaði hann met Spánverjans Rafael Nadal yfir flesta sigra á risamótum, en þeir eru nú orðnir 22 hjá hinum 35 ára gamla Djokovic.

Hann vann fyrsta sett 6:3, annað sett 7:4 eftir upphækkun og þriðja sett 7:5 eftir upphækkun. Viðureigina vann Djokovic því 3:0.

Á síðasta ári var honum vísað úr landi í Ástralíu vegna strangra skilyrða stjórnvalda um bólusetningar vegna kórónuveirunnar, sem Djokovic hefur ekki þegið. Gat hann því ekki tekið þátt á síðasta móti.

Með sigrinum í ár sá Djokovic til þess að hinn 24 ára gamli Tsitsipas bíður enn eftir sínum fyrsta sigri á risamóti í tennis, en Serbinn hafði einnig betur í úrslitaleik gegn honum á Opna franska meistaramótinu árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert