Séð til þess að þér líði ekki vel

Jón Daði Böðvarsson skoraði mark Íslands.
Jón Daði Böðvarsson skoraði mark Íslands. AFP

Jón Daði Böðvarsson gerði mark Íslands í 1:1-jafnteflinu gegn Úganda í vináttuleik í fótbolta í An­ta­lya í Tyrklandi í dag. Markið var kærkomið fyrir Jón Daða, sem hefur ekkert leikið með félagsliði sínu Millwall á Englandi á leiktíðinni.

„Þetta var rosalega gott fyrir mig og örugglega betra en fólk heldur. Að fá mínútur og mark í þokkabót. Það gefur mér mikið sjálfstraust og orku í næstu skref. Það er alltaf bónus að standa sig með landsliðinu en það er fyrst og fremst gott að komast í samkeppnisumhverfi aftur og spila fótbolta,“ sagði Selfyssingurinn á blaðamannafundi eftir leik.

Hann ræddi stöðu sína hjá Millwall, sem leikur í ensku B-deildinni, en þar er hann úti í kuldanum og hefur, eins og áður segir, ekkert verið í leikmannahópnum á leiktíðinni.

„Þetta er ekki kjörstaða enda ekki búinn að vera í hóp allt tímabilið. Ég fékk að heyra það snemma að ég væri ekki inni í myndinni á tímabilinu. Þjálfarinn var heiðarlegur hvað það varðar. Hann ætlaði að stóla á aðra framherja. Þeir vildu mig í burtu og þess vegna fæ ég ekki tækifæri.

Þetta er harður heimur og þegar þú ert ekki inni í myndinni er séð til þess að þér líði ekki vel. Þetta er búið að vera erfitt andlega. Ég er ekki sáttur, en hvað getur maður gert? Ég vil komast í alvöruumhverfi og komast aftur í gang. Ég vil komast að lán til að fá mínútur og spila mig aftur í gang,“ sagði Jón Daði Böðvarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert