Fótbolti

Aftur skoraði Rúnar Már | Elfs­borg varð af mikil­vægum stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Már skoraði í kvöld.
Rúnar Már skoraði í kvöld. Flaviu Buboi/Getty Images

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði annan leikinn í röð með Cluj í rúmensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Þá varð Íslendingalið Elfsborg af mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti í Svíþjóð.

Landsliðsmaðurinn Rúnar Már er að koma til baka eftir meiðsli en var í byrjunarliði Cluj í kvöld er liðið vann 2-0 sigur á Academica Clinceni. Rúnar Már skoraði annað mark Cluj á 29. mínútu leiksins.

Rúnar Már var skipt af velli þegar rúmlega 20 mínútur lifðu leiks. Lauk leiknum með 2-0 sigri Cluj og liðið því sem fyrr á toppi deildarinnar, nú átta stigum á undan FCSB þegar 17 umferðir eru búnar.

Í Svíþjóð tapaði Elfsborg 4-2 fyrir AIK. Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði síðustu sjö mínúturnar í liði Elfsborg en Hákon Rafn Valdimarsson sat allan tímann á varamannabekk liðsins.

Aron Bjarnason og Valgeir Lunddal Friðriksson sátu allan tímann á varamannabekk sinna liða er Sirius vann 3-0 sigur á Häcken.

Í Danmörku var Elías Rafn Ólafsson einnig á bekknum er Midtjylland og Vejle gerðu 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×