Lægð nálgast landið

Úrkomuspáin kl. 20 í kvöld.
Úrkomuspáin kl. 20 í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Suður af Hvarfi er 984 millibara lægð sem nálgast landið úr suðvestri og því er vaxandi suðaustanátt á landinu.

Eftir hádegi verður suðaustan 5-13 metrar á sekúndu og rigning eða súld með köflum en yfirleitt hægari og bjartviðri norðanlands fram eftir degi. Í kvöld bætir í úrkomu sunnan til á landinu, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

„Seint í nótt dregur úr vindi og úrkomu en eftir hádegi á morgun gengur aftur í suðaustan 5-13 m/s og annað kvöld fer að rigna sunnan- og vestanlands.

Hlýtt loft fylgir þessari lægð og útlit fyrir að hiti nái 15 stigum norðaustan til þar sem sólar nýtur við á morgun,“ segir enn fremur. 

Spáin er annars svohljóðandi:

Austlæg átt 5-13 m/s og rigning eða súld með köflum, en hægari og bjart norðanlands fram á kvöld. Bætir í rigningu sunnan til í kvöld, en hægari vindur og úrkomulítið í fyrramálið. Suðaustan 5-13 eftir hádegi á morgun og fer að rigna sunnan- og vestanlands annað kvöld. Hiti verður 7 til 15 stig yfir daginn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert