Ekkert rætt við okkur vegna Freys

Freyr Alexandersson þjálfar danska liðið Lyngby.
Freyr Alexandersson þjálfar danska liðið Lyngby. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirmaður íþróttamála hjá danska knattspyrnufélaginu Lyngby segir að ekki hafi borist nein beiðni frá öðru félagi um að fá að ræða við þjálfara liðsins, Frey Alexandersson.

Freyr var orðaður við danska úrvalsdeildarliðið Viborg í frétt á fótbolti.net en Viborg leitar nú að nýjum manni þar sem Lars Friis er á förum frá félaginu til AaB.

„Við höfum ekki heyrt neitt frá Viborg. Freyr sagði okkur allt um það að þeir hefðu verið í sambandi við hann áður en hann kom til okkar. Hvort hann sé á óskalista hjá þeim nú eru bara vangaveltur," sagði íþróttastjórinn Nicas Kjeldsen við bold.dk.

„Freyr er samningsbundinn okkur í eitt og hálft ár til viðbótar og bæði við og hann erum mjög ánægð með samstarfið. Ég sé ekki fyrir mér að Freyr sé á förum héðan," sagði Kjeldsen ennfremur.

Lyngby er í þriðja sæti B-deildarinnar en Viborg, sem vann deildina í fyrra, er í áttunda sæti af tólf liðum í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert