Varamennirnir breyttu öllu í Keflavík

Þórður Ingason markvörður Víkings horfir á eftir boltanum í leiknum …
Þórður Ingason markvörður Víkings horfir á eftir boltanum í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir/Jóhann Páll

Víkingur úr Reykjavík gerði góða ferð til Keflavíkur þegar liðið vann sterkan 2:1-endurkomusigur í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Varamenn Víkinga gjörbreyttu leiknum og sáu til þess að stigin þrjú fóru til Reykjavíkur.

Í fyrri hálfleiknum voru Víkingar talsvert meira með boltann á meðan Keflvíkingar vörðust aftarlega og beittu skyndisóknum.

Um miðjan fyrri hálfleikinn komust heimamenn yfir eftir snarpa sókn. Adam Árni Róbertsson fór þá vel með boltann á vinstri kantinum, átti frábæra fyrirgjöf yfir á fjærstöngina þar sem Sindri Þór Guðmundsson kom á ferðinni og skallaði boltann snyrtilega í netið.

Víkingar reyndu að bregðast strax við og komst Kristall Máni Ingason í tvígang nálægt því að jafna metin, fyrst eftir skot úr vítateignum sem fór af Frans Elvarssyni og aftur fyrir í hornspyrnu og örskömmu síðar þegar hann tók magnað skot rétt fyrir utan teig sem stefndi upp í samskeytin en Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur varði stórkostlega.

Staðan því 0:1, Keflvíkingum í vil, í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum, á 53. mínútu, átti Joey Gibbs skot í þverslá í kjölfar darraðardans í vítateignum. Sennilega hefði skotið endað í netinu ef það hefði ekki farið af Sölva Geir Ottesen, fyrirliða Víkings, í slána.

Fyrir utan þetta góða færi Keflvíkinga stýrðu Víkingar áfram leiknum en áttu líkt og í fyrri hálfleiknum í vandræðum með að skapa sér opin marktækifæri.

Það er að segja allt þar til Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, ákvað að gera tvöfalda breytingu á 57. mínútu og fara úr leikkerfi 3-4-3 í 4-3-3. Tveir vængmenn komu þá inn á í stað miðvarðar og miðjumanns.

Annar vængmannanna var Kwame Quee, sem þurfti innan við mínútu til þess að setja mark sitt á leikinn.

Hann átti þá frábæran sprett upp hægri kantinn, gaf fasta sendingu þvert fyrir markið þar sem Nikolaj Hansen var mættur og skoraði af örstuttu færi, sitt 11. mark í 13 deildarleikjum í sumar.

Staðan þar með orðin 1:1 og Quee fór fyrir Víkingum í að herja áfram á Keflvíkinga.

Annar varamaður, Helgi Guðjónsson, kom svo gestunum yfir á 78. mínútu. Víkingur geystist þá í skyndisókn þar sem Hansen gaf á Helga á hægri kantinum, hann fór illa með Magnús Þór Magnússon, fyrirliða Keflavíkur, lék með boltann inn í vítateig og lagði hann milli fóta Sindra Kristins á nærstönginni.

Staðan orðin 2:1 og þetta reyndist sigurmark leiksins.

Víkingur fer með sigrinum aftur upp í annað sæti deildarinnar og er nú með 26 stig á meðan Keflavík er áfram í því níunda með 13 stig.

Sem áður segir breytti innkoma varamanna Víkinga öllu fyrir leik þeirra. Spilið var fremur hægt framan af en með innkomu Quee á hægri kantinn og Adams Ægis Pálssonar á vinstri kantinn færðist miklu meiri hraði í leik gestanna.

Keflvíkingar, sem höfðu varist fimlega þar til vængmennirnir tveir komu inn á eftir tæplega klukkutíma leik, fóru að eiga í miklu meiri erfiðleikum með áhlaup Víkinga. Vont versnaði svo fyrir heimamenn þegar Helgi kom inn á.

Vörn Keflvíkinga lét enda undan í tvö skipti þegar Víkingar skoruðu tvö góð mörk sem nægðu til sigurs í kvöld.

Keflavík 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Kian Williams (Keflavík) á skot sem er varið Skotið af löngu færi en fer í varnarmann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert