Frábær viðsnúningur Grindavíkur gegn KR

Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavík unnu frækinn sigur gegn …
Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavík unnu frækinn sigur gegn KR í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Grindavík vann sterkan 90:80 sigur gegn KR í fyrsta leik þriðju umferðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, eftir að hafa verið um tíma 13 stigum undir.

Eftir afar jafnan fyrsta leikhluta þar sem KR leiddi með tveimur stigum, 19:21, bættu gestirnir úr Vesturbænum bara í í öðrum leikhluta og komust mest 13 stigum yfir skömmu fyrir leikhlé, 33:46.

Grindvíkingar sóttu aðeins í sig veðrið og löguðu stöðuna en voru átta stigum undir í hálfleik, 43:51.

Mögnuð byrjun heimamanna í síðari hálfleik þar sem liðið skoraði fyrstu níu stig þriðja leikhluta og komust þannig einu stigi yfir, 52:51, lagði grunninn að sterkum sigri Grindavíkur þar sem þessari byrjun var fylgt eftir með enn betri kafla undir lok þriðja leikhluta.

Eftir jafnræði framan af í leikhlutanum bættu Grindvíkingar stöðugt við forskot sitt, svo mikið að þeir leiddu með 10 stigum að honum loknum, 71:61.

KR-ingar reyndu hvað þeir gátu að koma sér inn í leikinn en náðu mest að minnka muninn niður í sex stig í fjórða og síðasta leikhluta. Grindavík var allan leikhlutann við stjórn og vann að lokum afar góðan tíu stiga sigur.

Spánverjinn Ivan Aurrecoechea fór á kostum hjá Grindavík og náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 20 stig og tók 12 fráköst að auki. Kristinn Pálsson skoraði 18 stig fyrir Grindavík, allt þriggja stiga körfur.

Hjá KR var Adama Darboe stigahæstur með 20 stig og þar á eftir var Shawn Glover með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert